Víðförull bassasöngvari í hlutverki drullusokka og ómenna
Bjarni Thor Kristinsson, bassasöngvari ættaður úr Garðinum, leikstýrði eigin leikgerð á Fidelio á Óperudögum í Hörpu nýverið.
Fidelio á óperudögum í Hörpu
Í verkinu sem er eina óperan sem Ludwig Van Beethoven samdi er tekist á við afleiðingar frelsisviptingar, hlutverk kynjanna, ást og grimmd. Einvalalið söngvara tók þátt í uppsetningunni sem að þessu sinni var sýnd í styttri útgáfu og í útsetningu fyrir sjö manna hljómsveit. Tvær sýningar voru í Hörpu um þarsíðustu helgi og síðan er fyrirhugað að sýna verkið með svipuðum hætti á óperuhátíð í Eistlandi í september.
Bjarni hóf söngnám átján ára en fór til Vínarborgar í framhaldsnám árið 1994 og vorið 1997 var hann ráðinn sem aðalbassasöngvari þjóðaróperunnar í Vín. Eftir nokkurra ára fastráðningu þar fór Bjarni víða um heim þar sem hann hefur sungið ýmis hlutverk í óperum sem lausráðinn söngvari.
Bjarni Thor hefur verið tíður gestur í Ríkisóperunni í Berlín en auk þess komið fram í mörgum af bestu óperuhúsum heims, s.s. í flestum stærri óperuhúsum Þýskalands, einnig víðsvegar um Evrópu, Bandaríkjunum, Asíu og Ástralíu. „Það er bara lúxus og forréttindi að fá að ferðast um svona víða, hafa atvinnu af því sem manni finnst skemmtilegt og á sama tíma að fá að skoða heiminn,“ segir Bjarni.
Bjarni bjó um tíma í Berlín eftir námsárin í Vín en flutti heim aftur fyrir nokkrum árum og býr núna í Garðabæ þar sem hann var valinn bæjarlistamaður á síðasta ári. „Það var mikil hjálp og heiður af þessari viðurkenningu sem fylgdu nokkur verkefni á annars rólegu ári,“ sagði Bjarni.
Bjarni Thor hefur af og til sungið hérlendis, bæði komið fram á tónleikum og í uppsetningum íslensku óperunnar. Hann hlaut Grímuna fyrir hlutverk Osmin í ,,Brottnáminu úr kvennabúrinu“ hjá Íslensku óperunni árið 2006. Bjarni Thor söng í Óperuperlum sem Íslenska óperan setti upp árin 2007 og 2009, og hlutverk Dulcamara í Ástardrykknum haustið 2009 og
Sarastro í Töfraflautunni, fyrstu uppfærslu Íslensku óperunnar í Hörpu, haustið 2011.
Dagbók söngvara á Covid tímum og verkefnin framundan
Bjarni Thor vakti mikla athygli í Covid-faraldrinum í vor um hvernig söngvari lifir sóttkví af með skemmtilegu bloggi sem var gefið út hjá Storytell. Síðasta vetur var lítið að gera á söngsviðinu hjá Bjarna en núna er að birta til og verkefni framundan í Þýskalandi hjá Kölnaróperunni. „Ég hef verið svo heppinn að Kölnaróperan hefur viljað fá mig inn ár eftir ár sem gestasöngvara, þannig að hún er orðin fastur punktur í mínu starfi, ég kem til með að syngja í fimm mismunandi verkefnum þar í vetur“.
„Ég kem síðan heim um áramótin og fæ þá aftur tækifæri á því að leikstýra óperu, Mærþöll eftir Þórunni Guðmundsdóttur. Óperan verður síðan sýnd í Gamla Bíói í Reykjavík“.
Það hefur verið unnið ótrúlega flott starf í óperuuppbyggingu hér á Ísland, mikið sungið á Íslandi í kórum og leikhúsum. „Að mínu mati hefði ríkið á að taka yfir starf íslensku óperunnar á sínum tíma með svipuðum hætti og Þjóðleikhúsið er rekið á fjárlögum. Frá því að óperan flutti í Hörpu hefur lítið fjármagn verið til að setja upp óperuverk en vonandi stendur þetta til bóta með fyrirhugaðri þjóðaróperu sem er núna til umræðu og í nefndarvinnu,“ segir Bjarni Thor.
Vinsæll í hlutverki drullusokka og ómenna
Bjarni Thor hlær þegar ég spyr hann um eftirlætishlutverk eða verkefni. „Þetta fer svolítið eftir framboði og eftirspurn. Ég fær oft að syngja hlutverk drullusokka og ómenni þannig að markaðurinn sér mér fyrir vinnu með þeim hætti. Þegar kemur að leikstjórn þá hef ég oft komið að ýmsum tilraunaverkefnum sem hefur kannski með reynslu mína að gera frá Þýskalandi. Þar eru menn óhræddir við að fara nýjar leiðir sem stundum tekst vel en ekki alltaf, samt alltaf spennandi“.
Reif næstum því niður sviðsmyndina
Bjarni hefur upplifað ýmislegt á sínum ferli og þegar ég bað hann að rifja upp eftirminnileg atriði þá kom ýmislegt upp í huga hans. „Þegar ég var að byrja minn söngferill á óperusviðinu var ég eitt sinn að syngja í óperettu. Sviðsmyndin var eftirgerð af bar þar sem hluti af vínflöskunum voru máluð plastítlát límd við sviðsmyndina. Mikill hamagangur var í atriðinu og hluti af atriðinu mínu var að grípa í vínflösku sem átti að vera á barborðinu. Í einni sýningunni vantaði flöskuna á borðið og greip ég því í eina af sviðsmyndarflöskunum sem var náttúrulega föst og ef ég hefði gripið hana með mér þá hefði ég rifið niður alla sviðsmyndina og hugsanlega eyðilagt sýninguna og þátttöku mína í þessari uppfærslu.“
Bjarni mundi einnig eftir einni sýningu sem hann söng í og á sýningardeginum var hann veikur af ælupest. Sýningin stóð og féll með honum því enginn var til að leysa hann af hólmi. Ákveðið var að halda sýningunni og til öryggis voru settar fötur sitthvoru megin við sviðið ef Bjarni þurfti að gubba, til þess kom þó ekki, væntanlega adrenalínið sem hafði þar áhrif.