Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

VIDEO: Barna- og fjölskylduleikrit á svið í Grindavík
Fimmtudagur 10. september 2009 kl. 17:09

VIDEO: Barna- og fjölskylduleikrit á svið í Grindavík

Leikhópurinn GRAL fumsýnir barna- og fjölskylduleikritið Horn á höfði sunnudaginn 13. september klukkan 14:00 í húsnæði Mamma Mia að Hafnargötu 7a í Grindavík.  Uppselt er á sýninguna.  Verkið skrifa þeir Bergur Þór Ingólfsson og Guðmundur S. Brynjófsson en þeir fengu tilnefningu til Grímuverðlauna á síðasta leikári ásamt Víði Guðmundssyni fyrir leikritið 21 manns saknað sem sýnt var í Saltfiskssetri Íslands.

Horn á höfði fjallar um Jórunni og Björn, tvö grindvísk börn, sem lenda í ævintýrum nótt eina við að leita lausna á stærsta vandamáli sem þau hafa staðið frammi fyrir.  Það eru nefnilega farin að vaxa horn á höfði Björns.  Börnin komast að því að til þess að hann losni við þau þurfa þau að leggja einhverja tiltekna festi í einhverja tiltekna kistu.  Á leið sinni hitta þau furðuverur sem spretta úr grindvísku landslagi:  Þjófarnir Már og Kári búa í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli og stela öllu steini léttara en vilja ekki með nokkru móti viðurkenna að þeir séu þjófar, Járngerður og Þórkatla er tvær manneskjur í einum líkama sem stanslaust rífst við sjálfa sig, bókasafnskonan Kilja hefur hinsvegar engan líkama og Þórir haustmyrkur leggst á hjörtun í fólki með þeim afleiðingum að allir verða daprir.  Svo er bara spurning hvor Birni takist að losna við hornin.



Leikararnir sem taka þátt í sýningunni eru þrír.  Víðir Guðmundsson leikur Björn, Sólveig Guðmundsdóttir leikur Jórunni og annan þjófinn og Sveinn Ólafur Gunnarsson, sem hlaut Grímutilnefningu fyrir leik sinn í ,,Fool for love“ árið 2008, leikur öll önnur hlutverk.

Þessi leiksýning er öll miklu stærri í sniðum en 21 manns saknað.  Leikmynda- og búningahönnuður leikhópsins, Eva Vala Guðjónsdóttir, hefur hannað leikmynd inn í litla rýmið sem áður var billjarðstofa hjá pizzustaðnum Mamma Mia og ljósahönnuðurinn Magnús Arnar Sigurðsson er fenginn úr Borgarleikhúsinu til að varpa ljósi á ævintýrið.

Tónlistina í verkinu semur Vilhelm Anton Jónsson, betur þekktur sem Villi Naglbítur.  En allt leikritið með söngvum var tekið upp í Hljóðrita og verður gefið út ásamt bæklingi með myndum eftir Högna Sigþórsson.

Leikstjórn er svo í höndum Grindvíkingsins Bergs Þórs Ingólfssonar.



Sýningin er ætluð fyrir alla landsmenn og vonast GRALverjar til þess að fólk geri sér helgarferð til Grindavíkur með fjölskylduna, en það er einungis 40 mínútna rúntur frá Reykjavík til Grindavíkur.  Fyrir þá sem eiga heima lengra í burtu má upplýsa að sýningin mun ferðast norður um heiðar og er á dagskrá Leikfélags Akureyrar um páskana2010.

Þetta er þó ekki eina ferðalagið sem GRAL leggur í á þessu leikári því 21 manns saknað mun verða sýnt í Landnámssetrinu í Borgarnesi í vetur.  Fyrsta sýning þar verður föstudaginn 18. september og er þegar að verða uppselt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024