Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Viðburðaríkt ár
Miðvikudagur 31. desember 2008 kl. 17:22

Viðburðaríkt ár

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Öryggis- og samgönguskóla Keilis:


Líklega verður árið 2008 að teljast viðburðaríkasta árið í langan tíma – a.m.k. frá stofnun lýðveldisins.
Margt kemur þar upp í hugann – nánast hvar sem litið er.


Úr einkalífinu koma upp í hugann margar ljúfar stundir með stórfjölskyldunni og ekki síður góðum vinum þar sem gleðin og bjartsýnin var alls ráðandi.  Þannig má nefna frábæra ferð á ættarslóðir í Klakksvík, Færeyjum, með nánustu vinum og eiga þar skemmtileg „dejavu“ með þeim – ekki síst í höfuðstöðvum ættarfabrikkunnar, Föroya Bjór.


Laxveiðisumarið er auðvitað svo hrikalegt að sérútgáfu Víkurfrétta þyrfti til að gera sæmileg skil.
Upp kemur og djúpstæð ferð til Greyton í S-Afríku með vinum okkar góðum.  Bjuggum þar á hóteli Íslendinganna, Bóa og Villa.  Á sjálfan páskadag fórum við í messu í fátækrahverfinu og urðum öll klökk af hrifningu og samkennd með hinu brosmilda, lífsglaða og fjöruga fólki.  Heimsókn okkar í skóla fátækrahverfisins er líka brennd í minninguna ekki síst þegar við afhentum börnunum um 60 notaða búninga frá krökkum í fótbolta úr Keflavík.  Þvílík hamingja og þvílíkt þakklæti. Þau hefðu ekki orðið glaðari þó við hefðum fært þeim gullstangir.

Hið óvenjulega við heimsóknina til S-Afríku var að hún á sér stað þegar græðgisvæðingin og ruglið meðal okkar Íslendinga stóð sem hæst.  Varla má hugsa sér meiri andstæður.  En það leiðir þá hugann að bankahruninu mikla hér sem engan óraði fyrir nema e.t.v. völvu Vikunnar (spáði þessu í desember 2007).  Enn má segja að þjóðin sé hálf dofin vegna þessa og kalli enn eftir svörum.  Hverjir eru ábyrgir? Enn hefur enginn axlað neina ábyrgð!  Hvernig gat þetta gerst? 

Svör munu örugglega einhvern tíma birtast og þurfa að gera Það.  Hið jákvæða er að hugsun þjóðarinnar og gildismat breyttist þar sem peningasýkin vonandi víkur fyrir öðrum gildum.  Ég held hins vegar að ekki aðeins hafi bankakerfið hrunið heldur líka hið hefðbundna pólitíska flokkakerfi.  Spái því að upp kunni að kvikna nýjar áherslur í pólitík þar sem áhersla verður á heiðarleika, gegnsæi og aðskilnað framkvæmdavals frá löggjafarvaldi.

Kosning Obama til forseta Bandaríkjanna markar örugglega tímamót sem heimurinn allur mun finna fyrir.  Við munum sjá með honum breytt og betri gildi og vonandi slökun á hinni hræðilegu spennu sem skapast hefur í heiminum.  Árásir Ísraela á Palestínu í lok ársins valda sorg og vonbrigðum.

Ekki má gleyma hvað landganga ísbjarnanna varð „absurd“ og í raun fyndin þó ýmisr hafi orðið skelkaðir.

Af árinu 2008 hlýtur líka að standa upp úr hversu skemmtilega uppbyggingarstarfið á Vellinum hefur gengið.  Þar hefur allt farið fram úr björtustu vonum og fátt sem bendir til annað en svo verði áfram.  Sýnir hve miklju má áorka ef samstaða er fyrir hendi og trú á tækifærin í stað nöldurs og neikvæðni.  Þó atvinnuástand sé í augnablikinu erfitt og sárt fyrir margar fjölskyldur þá er ástæða til bjartsýni því liklega er hvergi á landinu jafn mörg tækifæri í augsýn.  Spái því að þegar líður á árið 2009 munum við sjá hraða og spennandi uppbyggingu hér á svæðinu.

Ég þakka skemmtilegt samstarf á árinu 2008 og óska öllum gleðilegs og skemmtilegs árs 2009.