Viðamikil bæjarhátíð Sandgerðinga
– Sandgerðisdagar verða haldnir 25. – 31. ágúst
Sandgerðisdagar verða haldnir í Sandgerði dagana 25. – 31. ágúst. Dagskráin hefst á mánudag og lýkur á sunnudag en hápunkturinn verður laugardaginn 30. ágúst. Hátíðarsvæðið verður við grunnskólann eins og á síðasta ári og þar verður skemmtileg dagskrá allan daginn.
Eins og áður sagði hefst dagskrá hátíðarinnar strax á mánudeginum með móttöku nýrra Sandgerðinga í Vörðunni síðdegis og um kvöldið verður Pub quiz á veitingastaðnum Mamma mía. Sandgerðisdagagöturnar í ár eru Miðtún, Norðurtún og Stafnesvegur og bjóða íbúar við þessar götur bæjarbúum og gestum í skemmti- og markaðsstemmingu á túninu milli Miðtúns og Stafnesvegar. Listatorg er opið alla daga vikunnar frá kl. 13:00 - 17:00. Fjölbreytt úrval af handverki eftir lista- og handverksfólk úr Sandgerði og víðar af Suðurnesjum.
Á þriðjudag verður hið vinsæla pottakvöld kvenna í sundlauginni í Sandgerði. Þar verður m.a. boðið upp á tískusýningu með prjónavörum frá konum í Sandgerði, snyrtvörukynningu og spjall með Matta Ósvald.
Á miðvikudag verður formleg setningarhátíð Sandgerðisdaga í Grunnskólanum í Sandgerði með leik- og grunnskólabörnum. Síðdegis verður opið hús í tónlistarskólanum þar sem boðið verður upp á lifandi tónlist og veitingar. Hátíðardagskrá verður í safnaðarheimilinu um kvöldið þar sem fram koma m.a. Valdimar Guðmundsson, Sigríður Thorlacius og Kvennakór Suðurnesja. Að dagskrá lokinni verður slegið upp gömludansaballi fyrir alla fjölskylduna þar sem Harpa danskennari sem margir kannast við úr Dansskóla Heiðars Ástvaldssonar mun m.a. aðstoða við danssporin. Hnallþórukeppnin verður á sínum stað og öllum boðið til kaffisamsætis. Þetta er áfengislaus skemmtun og eru allir velkomnir, börn og fullorðnir.
Á fimmtudag verður Hnátumót KSÍ haldið á N1 vellinum í Sandgerði þar sem hópur hæfileikaríkra stúlkna keppa í knattspyrnu. Diskótek verður fyrir yngstu kynslóðina í félagsmiðstöðinni Skýjaborg og um kvöldið verður síðan hin vinsæla Lodduganga fyrir fullorðna fólkið.
Á föstudag verður myndlistarsýning Sigríðar Rósinkars opnuð í Listatorgi. Einn af hápunktum dagsins er síðan knattspyrnukeppni milli Norðurbæjar og Suðurbæjar. Boðið verður upp á saltfiskveislu fyrir keppendur að henni lokinni. Á sama tíma verður sápubolti og bronskeppni fyrir yngri kynslóðina við grunnskólann og um kvöldið verður haldið unglingaball þar sem hljómsveitin Úlfur Úlfur spilar. Söngva- og sagnakvöld verður í Efra Sandgerði og ball með Ingó og Veðurguðunum í samkomuhúsinu.
Á laugardag verður golfmót, dorgveiði, söguferð og kajakasiglingar. Vöfflukaffi og handverksmarkaður verður í Miðhúsum og ókeypis aðgangur verður í Þekkingarsetrið bæði laugardag og sunnudag en þar er margt skemmtilegt að sjá og gera.
Hátíðarsvæðið við Grunnskólann mun iða af lífi frá kl. 13 en þar verður markaður, leiktæki, hestar, gokart, mótorhjól , fornbílar og margt fleira. Hin vinsæla söguferð um Sandgerði í boði Hópferða Sævars verður á sínum stað kl. 14.00 þar sem Reynir Sveinsson leiðsögumaður mun segja frá. Á útisviðinu verður skemmtileg dagskrá allan daginn þar sem Pollapönkarar koma m.a. fram.
Um kvöldið hefst dagskráin með hverfa- og litagöngu frá Vörðunni. Flott dagskrá heldur síðan áfram á útisviðinu þar sem meðal annars er boðið er upp á taekwondosýningu, Jón Jónsson, brekkusöng, Klassart og fleira. Dagskránni við grunnskólann lýkur svo með glæsilegri flugeldasýningu en að henni lokinni verður dansleikur með Skítamóral í samkomuhúsinu.
Á sunnudag verður svo hátíðarmessa í Hvalsneskirkju og markar hún upphaf Hallgrímshausts í Hvalsnessókn í tilefni af 400 ára fæðingarafmæli Hallgríms Péturssonar. Eftir messu verður Hallgrímshlaup / ganga frá Hvalsneskirkju að Íþróttamiðstöðinni í Sandgerði og verður frítt í sund að hlaupinu loknu.
Ítarleg dagskrá Sandgerðisdaga verður sett inn á vef Sandgerðisbæjar og á facebooksíðu Sandgerðisdaga.