Við geigvænan mar
Sumarsýning í Listasafni Reykjanesbæjar
Sumarsýning Listasafns Reykjanesbæjar opnaði laugardaginn 1. júní s.l. Sýningin ber heitið „Við geigvænan mar“ og þar má sjá verk sem lýsa náttúru Reykjanessins og eru unnin á tímabilinu 1942- 2005 eftir ýmsa listamenn. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson og verkin koma frá Listsafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Landsbankans, Listasafni Reykjanesbæjar og svo eru nokkur í einkaeigu.
Í sýningarskrá segir m.a: „Lengi vel var Reykjanesið ekki ofarlega á lista íslenskra landslagsmálara. Leit þeirra að séríslenskri fegurð sem stæðist samanburð við það fegursta sem fannst í öðrum löndum leiddi þá iðulega að stöðum þar sem gat að líta mikilfenglegri og litríkari viðfangsefni en þótti vera á Reykjanesinu. Það var tæplega fyrr en á fjórða áratug síðustu aldar að viðhorf listamanna til náttúrunnar á Reykjanesinu tóku að breytast. Þessi viðhorfsbreyting tengdist vaxandi áhuga Íslendinga á uppruna sínum í kjölfar Alþingishátíðarinnar 1930; gat hugsast að harðhnjóskuleg náttúra landsins væri einmitt lykillinn að þrautseigju landans, þúsund ára úthaldi hans út við geigvænan mar.“
Engu að síður tók það listmálara nokkurn tíma að nema land á Reykjanesi. Þar rann heimamönnum á borð við Magnús Á. Árnason og Eggert Guðmundsson blóðið til skyldunnar. Smám saman sagði nálægðin við Reykjavík til sín. Og vildu menn fjalla um úfinn sjó og lífsháska var stutt að fara í brimið beggja vegna Reykjanesskagans, sjá málverk eftir Jón Stefánsson, Veturliða Gunnarsson, Hrólf Sigurðsson, Jóhannes Geir , Eirík Smith o.fl.“ Eins og segir í sýningarskrá sem gefin er út af þessu tilefni.
Sýningin verður opin virka daga frá kl. 12.00-17.00 og um helgar frá kl. 13.00-17.00 og stendur til 18. ágúst.