Við áramót: Stórir áfangar á árinu
Það sem stendur upp úr var að verða afi á árinu og eignast nafna, segir Ólafur Árni Halldórsson sem strengir ávallt áramótaheit sem snýst um það að bæta sjálfan sig.
Hvaða stendur upp úr í einkalífi þínu á árinu?
Ekkert stendur hærra en að fá nýjan nafna og ná loks þroska til að bera nafnbótina „afi“.
Fagnaðir þú ákveðnum áfanga eða byrjaðir þú á einhverju nýju 2018?
Íbúðarhúsið sem við hjónin byggðum og höfum búið í síðustu 11 ár var selt og nýtt keypt. Rekstur fyrirtækis okkar Sápan er nú að klára tíunda árið sitt og flutti í nýtt rými í sama húsi. Þetta eru stórir áfangar á árinu.
Hvað fannst þér stóra fréttin á landsvísu?
Fréttir af því að nú ætli ríkið að setja upp veggjöld á öllum hornum í gatnakerfinu. Að mínu mati óþarft ef fjármunum er ráðstafað eins og eðlilegt væri miðað við þau gjöld sem þegar eru tekin af okkur.
Hvað fannst þér stóra fréttin í nærumhverfi þínu?
Það eru váleg tíðindi þegar við fréttum af uppsögnum fólks svo hundruðum skiptir í okkar nærumhverfi. Sorglegt og tekur tíma að laga.
Hvað ætlar þú að borða um áramótin?
Um áramót höfum við hjónin oft reynt að hafa eitthvað í matinn sem við höfum ekki borðað áður. Vandi er því um slíkt að spá að þessu sinni. Til vara er þó alltaf biti af hamborgarhrygg.
Eru einhverjar áramóta / nýárshefðir hjá þér?
Síðustu 10 ár hefur það verið hefð að endurskipuleggja rekstur heimilis og fyrirtækis strax í byrjun janúar með það að markmiði að ná betri árangri á nýju ári.
Strengir þú áramótaheit?
Já, hef gert það í mörg ár. Alltaf snýst það um að bæta sjálfan mig á einhvern hátt. Þannig ákvað ég fyrir mörgum árum að fara t.d. í nám. Fyrst framhaldsskólanám og síðar áfram til náms í nokkrum háskólum.