Við áramót: Spenntur fyrir afahlutverkinu
Páll Valur Björnsson þingmaður lítur um öxl
Páll Valur Björnsson þingmaður Bjartrar framtíðar segir úrslit sveitarstjórnakosninganna í Reykjanesbæ hafa verið stærstu fréttir ársins á Suðurnesjum. Fyrir utan stjórnmálamenn þá segir Páll að íþrótta- og tónlistarfólk, hafi verið hvað mest áberandi Suðurnesjamanna á árinu sem var að líða.
Hvað stóð upp úr í fréttum ársins 2014 á Suðurnesjum?
Tvímælalaust úrslit sveitarstjórnakosninganna í Reykjanesbæ síðasta vor þar sem að meirihluti Sjálfstæðismanna féll og sá stóri reikningur sem sá meirihluti skyldi eftir sig. Hef fulla trú á að nýr meirihluti sem tók við stjórninni rétti kúrsinn af með samstilltu átaki bæjarbúa.
Hvaða Suðurnesjamaður var mest áberandi að þínu mati þetta árið?
Það liggur einhvern veginn í hlutarins eðli að stjórnmálamenn eru oftast mest áberandi hvar sem á landinu þeir eru staðsettir hvort sem það er jákvætt eða ekki. Mér dettur fyrst í hug Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra og nýi bæjarstjórinn í Reykjanesbæ Kjartan Már Kjartansson. Tónlistar- og íþróttafólkið okkar er alltaf áberandi á hverjum tíma og nægir að nefna körfuboltasnillinginn Elvar Friðriksson sem er að gera frábæra hluti í háskólaboltanm í Bandaríkjunum, það er frábært hvað margir framúrskarandi íþróttamenn koma frá Suðurnesjum.
Hvað var það jákvæðasta sem gerðist á árinu?
Atvinnuleysi á svæðinu fór minnkandi og ný atvinnutækifæri eru í farvatninu sem hugsanlega leiða til þess að margumrætt atvinnuleysi hverfi. Ég tel að þrátt fyrir þrengingar á síðustu árum þá sé að rofa til, það er gott að búa á Suðurnesjum og hér býr mikil mannauður. Með öflugri samvinnu allra sveitarfélaga, samlíðun og jákvæðni að vopni gerum við Suðurnesin enn betri stað til þess að búa á. Svo urðum við Grindvíkingar bikarmeistarar í körfubolta það var nú afskaplega jákvætt.
En það neikvæðasta?
Áðurnefnd fjárhagsstaða Reykjanesbæjar og svo staða bæjarsjóðs Sandgerðisbæjar er að sjálfsögðu afar neikvæð, ekki eingöngu fyrir þessi bæjarfélög heldur svæðið í heild sinni. En vandamál eru til þess að leysa þau og það munu þessi bæjarfélög gera. Það væri hægt að velta sér endalaust upp úr neikvæðum hlutum sem hafa gerst á þessu ári sem er að líða og þá ekki síst í landsmálunum en ég ætla að láta það ógert, neikvæðni er svo bráðsmitandi. Ég tel það miklu vænlegra til árangurs að líta á björtu hliðarnar og reyna að vinna út frá þeim. Það er víða pottur brotinn í samfélaginu og margt sem betur má fara en ef allir leggjast á árarnar og vinna samhent að lausn þeirra erfiðu verkefna sem við blasa munum við leysa þau.
Hvað stóð upp úr persónulega hjá þér á þessu ári?
Þetta ár var persónulega nokkuð gott hjá mér, ég er að ná betri tökum á starfi mínu þó ég eigi margt eftir ólært. Börnin mín tvö giftust ástvinum sínum á árinu og ég mun eignast mitt fyrsta barnabarn í vor og því fylgir mikil tilhlökkun og spenna, ég hef lengi beðið eftir að fá að takast á við afahlutverkið.
Ætlar þú að strengja áramótaheit?
Ekki önnur en þau að reyna að bæta mig sem manneskju, verða betri á morgun en ég er í dag. Halda áfram að sinna starfinu mínu af alúð og áhuga og reyna að láta gott af mér leiða.
Hvað breytingar viltu sjá á Suðurnesjum á nýju ári?
Ég vil sjá Suðurnesin blómstra á nýja árinu enn meir en áður og ég vil sjá öll þau atvinnuverkefni sem eru í farvatninu fara af stað af fullum krafti. Framkvæmdir við Bláa lónið, flugstöðina og iðnaðarsvæðið í Helguvík munu skapa fjölda nýrra starfa á svæðinu sem munu hleypa krafti og bjartsýni í mannlífið okkar hér suðurfrá. Ég veit að það hljómar eins og gömul tugga og klisja en tækifærin liggja undir hverjum steini hér á Suðurnesjum og það er okkar sem hér búum að nýta þau.