Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Við áramót: Smáfréttir urðu að stórfréttum
Sunnudagur 30. desember 2018 kl. 14:00

Við áramót: Smáfréttir urðu að stórfréttum

Ólafía Ólafsdóttir fer yfir árið á lokadegi ársins með sjálfri sér og skoðar hvað hefur verið gott og hvað hefði mátt fara betur. Hún stefnir alltaf að því að verða betri í dag en í gær. 
 
Hvaða stendur upp úr í einkalífi þínu á árinu? 
Þetta ár hefur verið viðburðarríkt í lífi mínu og ég fengið verkefni sem mig hafði ekki órað fyrir að ég myndi nokkurn tímann reyna. Ég hef t.d. fengið að kynnast dómskerfinu okkar og komist að því að það er allt öðruvísi en ég hafði ætlað. Það eru forréttindi í þessu landi okkar að hver og einn getur leitað réttar síns. Þetta snýst allt um réttindi okkar og skyldur. Þannig birtist ábyrgð okkar á eigin lífi. Vorið 2017 lauk ég námi til löggildingar fasteigna, fyrirtækja- og skipasala og það sem stendur helst uppúr á þessu ári er hversu mikið ég hef þroskast í því starfi og hversu færni mín hefur aukist. 
 
Fagnaðir þú ákveðnum áfanga eða byrjaðir þú á einhverju nýju 2018? 
Já, ég skipti um vinnustað og færði mig yfir á Fasteignasöluna Bæ í Kópavogi. Þar starfa ég sem löggiltur fasteignasali og líkar vel og keyri á milli frá heimili mínu í Garðinum.
 
Hvað fannst þér stóra fréttin á landsvísu?  
Engin sem kemur mér í hug. Margar smáfréttir voru gerðar að stórfréttum.  Þetta eru allt verkefni sem þarf að vinna og í sumum tilfellum gera betur. Þegar smáfrétt verður að stórfrétt þá ættum við öll að líta í eigin barm og reyna að gera betur því þá batnar heimurinn smátt og smátt. 

Hvað fannst þér stóra fréttin í nærumhverfi þínu? 
Stóra fréttin í mínu nærumhverfi er að kísilverksmiðjan eigi hugsanlega að fara aftur í gang.  Ekki líst mér á það enda verksmiðjan allt of nálægt íbúðabyggð. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er það velferð fólksins sem skiptir meira máli. 
 
Hvað ætlar þú að borða um áramótin? 
Kalkún enda ekki mikið fyrir reyktan mat.  Þykir reyktur matur góður en hann fer ekki vel í mig. 
 
Eru einhverjar áramóta / nýárshefðir hjá þér?  
Á lokadegi ársins fer ég yfir árið og skoða hvernig árið hefur verið, hvað hefur verið gott og hvað hefði mátt betur fara. 
 
Strengir þú áramótaheit? 
Ekki beint en ég set mér raunhæf markmið sem ég stend oftast við. Ég stefni alltaf að því að verða betri í dag en í gær. 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024