Við áramót: Flutningar Vísis stærstu fréttir ársins
Páll Jóhann Pálsson fer yfir árið 2014
Þingmaðurinn Páll Jóhann Pálsson hjá Framsóknarflokki, segir þá ákvörðun Vísis hf að sameina alla fiskvinnslu fyrirtækissins á einn stað í Grindavík og hætta starfsemi á Húsavík, Djúpavogi og Þingeyri, hafa verið helstu fréttir ársins á svæðinu. Á árinu sem er að hefjast vill Páll sjá stórefldar samgöngur á Suðurnesjum og að atvinnuástand eflist hér enn frekar.
Hvað stóð upp úr í fréttum ársins 2014 á Suðurnesjum?
Mjög umdeild var ákvörðun Vísis hf í Grindavík eftir taprekstur árið 2013, að sameina alla fiskvinnslu fyrirtækissins á einn stað í Grindavík og hætta starfsemi á Húsavík, Djúpavogi og Þingeyri. Með þeirri ákvörðun fluttust yfir 100 störf frá áður töldum stöðum til Suðurnesja.
Hvaða Suðurnesjamaður var mest áberandi að þínu mati þetta árið?
Ragnheiður Elín, eðli málsins samkvæmt en hún er jú eini ráðherrann af svæðinu.
Hvað var það jákvæðasta sem gerðist á árinu?
Stóraukin umsvif í Leifsstöð og reyndar víðar á svæðinu og atvinnuleysi minnkaði.
En það neikvæðasta?
Að skuldastaða stærsta sveitarfélagsins á svæðinu, Reykjanesbær reyndist vera mun verri en svartsýnustu menn höfðu spáð.
Hvað stóð upp úr persónulega hjá þér á þessu ári?
Vetrarfrí í austurrísku ölpunum síðastliðinn vetur með konunni og góðum vinum og svo fór ég með afastrák á Laugardalsvöllin þar sem við sáum Ísland vinna Holland 2-0, það var meiriháttar upplifun.
Ætlar þú að strengja áramótaheit?
Já eins og ég hef alltaf gert en hef það fyrir mig.
Hvað breytingar viltu sjá á Suðurnesjum á nýju ári?
Ég vil sjá atvinnuástandið batna enn meira og eru mörg teikn á lofti um að svo verði. Mörg járn eru í eldinum og má þar nefna enn meiri uppbyggingu í Leifsstöð upp á marga milljarða, framkvæmdir eru aftur hafnar á iðnaðarsvæðinu við Helguvík og Bláa lónið heldur áfram að stækka og hugnast mönnum að reisa hótel í hrauninu sem verður mjög spennandi að sjá. Til að öll þau störf sem skapast nýtist sem flestum hér á Suðurnesjum þarf að stórefla almenningssamgöngur á Suðurnesjum þannig að fólk komist til og frá vinnu þótt það búi ekki í sama hverfi (þorpi). Nú um áramótin byrjar nýtt leiðarkerfi strætó á svæðinu og er það skref í rétta átt og vona ég að fólk verði duglegt að nota strætó og að þetta kerfi haldi áfram að þróast þannig að sem flestir sjái sér hag í því að notfæra sér það.