VF Spjallið „Er töffari á netinu“
Björn Geir Másson er 21 árs Keflvíkingur sem stundar nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja í grunnnámi í málm- og véltæknigreinum en hann stefnir á að læra vélstjórn. Björn fékk inngöngu í FS eftir að hafa óskað þess í jólagjöf á vf.is í stuttu jólaspjalli og vildi hann sérstaklega þakka vefnum fyrir hjálpina við að komast inn í skólann. Áður hafði Björn Geir lokið stúdentsprófi af náttúrufræðibraut vorið 2009. Með skólanum vinnur Björn hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar við áfyllingar og hefur gert undanfarin 3 ár. Hann býr í Keflavík og er á föstu með Dínu Maríu Margeirsdóttur. Björn segist stefna á að klára námið og fá vinnu tengda því hérlendis eða jafnvel erlendis. Hann segist einnig ætla að halda áfram með þá miklu vinnu sem hann hefur lagt undanfarið í áttina að því að líta út eins og milljón dollarar. Í sumar fer Björn til Kaliforníu að heimsækja kærustuna sem þar býr og starfar. Þar ætlar hann að hafa það náðugt og skarta sólgleraugum jafnt innan sem utandyra, drekka regnhlífadrykki og borða óhóflega mikið nautakjöt í formi hamborgara. Restin af sumrinu mun einkennast af vinnu og að njóta íslenskrar veðurblíðu segir Björn. Við fengum Björn Geir til að deila með okkur smekk sínum á hinum ýmsu hlutum.
Bitinn
„Góður hamborgari er betri en allt annað. Burger Meister í Kaliforníu er sá matsölustaður sem ég þrái þessa daganna. Það vantar sárlega góðan hamborgara í Reykjanesbæ að mínu mati.“
Tónlistin
„Ég hlusta langmest á rapp. Undanfarið hefur flest ný tónlist fallið í skuggann á My Beautiful Dark Twisted Fantasy plötunni með Kanye West.“
Þátturinn
„Ég er nýbyrjaður að horfa á Boardwalk Empire og lofa þeir mjög góðu. Annars eru 30 rock, Entourage og Two and a half men í miklu uppáhaldi og gerir einkalíf Charlie Sheen þá þætti enn betri.“
Bíómyndin
„The Fighter er besta myndin sem ég hef séð það sem af er ári. Kvikmyndir með mikið af „one-liners“ eru í miklu uppáhaldi og horfi ég á The Rock og Con Air nokkrum sinnum á ári.“
Vefsíðan
„Facebook, gmail.com, nba.com, flickmylife, vf.is og svo les ég óhóflega mikið af hinum ýmsu spjallborðum innlendum sem erlendum og ég geri mikið af því að vera töffari á netinu.“
Mynd: Björn staddur hjá Alcatraz fangelsinu fræga, en þar gerist einmitt myndin The Rock sem er í miklu uppáhaldi hjá Birni.