VF Spjall „Aukaæfingin skapar meistarann“
Holtaskóli kom sá og sigraði í Skólahreysti sem fram fór á dögunum. Þetta er frábær árangur hjá þessu unga fólki og ljóst að Reykjanesbær á mikið af frambærilegu fólki í Skólahreysti en góður árangur hefur náðst undanfarin ár. Við fengum einn af liðsmönnum Holtaskóla, Birki Frey Birkisson Keflvíking á 16. ári í spjall til okkar og spurðum hann spjörunum úr. Þessa dagana er Birkir alveg við það að klára grunnskólann en hann byrjar í prófum í næstu viku. Inn á milli er hann alltaf á fótboltaæfingum með Keflvíkingum sem spila í Faxaflóamótinu um þessar mundir.
Krakkarnir í Holtaskóla eru á leið til Finnlands á næstunni en þar munu þau keppa í stóru móti í Skólahreysti. Er ekki mikil eftirvænting í hópnum?
„Jú, það er mjög mikil tilhlökkun. Við erum strax byrjuð að tala um hvað við ætlum að gera þarna og hvað við ætlum að kaupa í búðunum og svona. Sumir eru meira að segja byrjaðir að reyna að læra finnsku,“ segir Birkir en hann heldur utan ásamt liðsfélögum sínum þeim Eyþóri Guðjónssyni, Sólnýju Sif Jóhannsdóttur og Elvu Dögg Sigurðardóttur nú í lok maí.
Hvernig æfir maður fyrir Skólahreysti?
„Við erum með valfag í skólanum sem heitir Skólahreysti og þar komum við saman einu sinni í viku og þar er tekið á því. Svo eru auðvitað líka íþróttinar sem við æfum, við strákarnir erum í fótbolta og stelpurnar eru í fimleikum. Svo er ég líka sjálfur í Lífsstíl að lyfta þar. Fyrir síðustu keppni var páskafrí þannig við gátum ekki mætt í tíma náttúrlega en við hittumst fjórum sinnum í fríinu og gerðum okkur klár fyrir lokakeppnina. Það er aukaæfingin sem skapar meistarann,“ segir Birkir og greinilegt að metnaðurinn er til staðar hjá þessum unga íþróttamanni.
Í ár tók Birkir í fyrsta sinn þátt í sjálfri keppninni en hann reyndi að komast í liðið í fyrra en það gekk ekki eftir. Það varð til þess að hann varð ákveðinn í því að komast að á næsta ári. Áhuginn á Skólahreysti vaknaði fyrst hjá Birki þegar hann var í 6. bekk og sá Skólahreysti í sjónvarpinu og þar ákvað hann hreinlega bara að komast í keppnina einn daginn.
Áhugamál Birkis eru eins og gefur að skilja íþróttir. Hann æfir fótbolta árið um kring og á veturna fer hann á snjóbretti auk þess að vera duglegur í ræktinni. Fyrirmynd Birkis er Lionel Messi knattspyrnumaður hjá Barcelona. „Við erum svipað stórir en ég er nú ekki sá stærsti. Samt er hann besti fótboltamaður í heimi ,“ segir Birkir.
Í sumar ætlar Birkir sér að fara í Vinnuskólann og vinna sér inn pening fyrir veturinn og svo verður hann auðvitað á fullu í boltanum í Íslandsmótinu og á Rey-cup.
Í framtíðinni stefnir Birkir svo á að klára framhaldsskólann og svo eftir það langar hann líklegast í háskóla að læra sálfræði, hann segir þó að margt geti breyst í þeim efnum.
Við tókum Birki í smá yfirheyrslu og forvitnuðumst um ýmislegt sem hann hefur gaman af:
Bókin
„Ég les nú reyndar mjög lítið af bókum en ef ég fæ þær í jólagjöf þá les ég þær. Um jólin 2009 fékk ég bók sem heitir Strákarnir með strípurnar og mér finnst hún mjög góð, ég held að hún sé fyrirmyndin af Óróa kvikmyndinni. En svo standa Gillz-bækurnar alltaf fyrir sínu.“
Þátturinn
„How I met your mother eru uppáhalds en ég fylgist núna mest með Eastbound and down“.
Kvikmyndin
„Ég var að ljúka við að horfa á The Green Hornet og hún er mjög góð. En uppáhaldsmyndirnar mínar eru The Shawshank Redemption og The Green Mile.“
Vefsíðan
„Ég er nú oftast inn á Facebook en ég kíki líka á hverjum degi á Fótbolti.net, B2.is og Youtube.com og svo auðvitað fréttaveiturnar Víkurfréttir, Mbl og Vísi.“
Tónlistin
„Hlusta á nánast alla tónlist en Wiz Khalifa og Chris Brown eru bestir.“
Hluturinn
„Uppáhaldshluturinn minn er tölvan, fótboltaskórnir og snjóbrettið.“
Myndir/ Efst er Birkir hægra megin ásamt Eyþóri Guðjónssyni liðsfélaga sínum í Skólahreysti. Miðja:Birkir heldur á finnska fánanum eftir sigur Holtaskóla á dögunum.
[email protected]