VF Spjall: Ætlaði sér alltaf í MORFÍs
Í kvöld ferðast MORFÍs-lið Fjölbrautaskóla Suðurnesja alla leið vestur á Ísafjörð þar sem skólinn mun etja kappi við Menntaskólann á Ísafirði í hinni bráðskemmtilegu ræðukeppni framhaldsskólanna. Einn af liðsmönnum FS-inga heitir Njáll Skarphéðinsson en hann er 17 ára strákur úr Reykjanesbæ sem stundar nám á náttúrufræði-hraðbraut. Ásamt því stundar hann nám í tónlistarskólanum, en þar æfir hann á píanó. Við tókum hús á Njáli og forvitnuðumst aðeins um MORFÍs og undirbúninginn fyrir slíka keppni.
Hvað er á könnunni hjá þér um þessar mundir? „Brjálaðar MORFÍs æfingar, kemst fátt annað að.“
Af hverju fórstu út í ræðumennsku?
„Ég var skráður í ræðulið Myllubakkaskóla án þess að ég vissi af. Þar kynntist ég MORFÍs. Eftir að ég fann titilinn „ræðumaður Reykjanesbæjar,“ hefur það aðeins virkað sem hvatning. Eftir það var ekkert aftur snúið, ég ætlaði í MORFÍs lið FS.“
Njáll segir allt vera gaman við MORFÍs. „Spennan, andrúmsloftið og tilfinningin sem maður fær þegar maður stendur uppi í pontu að tala fyrir framan hrúgu af fólki er svakaleg. Ég er rosalega mikill keppnismaður, kannski er það ástæðan fyrir því að ég elska þetta.
Hvernig hafið þið verið að undirbúa ykkur?
„Stífar æfingar, eytt öllum vakandi stundum í það að semja, flytja og æfa ræðurnar. Þetta er ekki grín, það eru gerðar gífurlegar kröfur til manns.“
Áttu þér fyrirmynd á þessum vettvangi?
„Fullt, erfitt að velja einhverja eina. En ég ætla að leyfa mér að nefna þjálfarann minn, hann Guðmund Egil. Hann er gífurlega fær á þessu sviði og mjög reyndur, hvetur mann vel áfram.“
Á léttari nótunum:
Hvor myndi vinna ræðukeppni, Sylvester Stallone eða Mike Tyson? Úff, pass. Of erfitt.
Hver er eftirlætis gosdrykkurinn þinn? Pepsi Max, án efa.??
MORFÍs er...? Fallegt
Hvað er best við FS? Gott nám, öflugt félagslíf og skemmtilegir krakkar.
Af hverju leysir ofbeldi vanda? Mættu á Ísafjörð, og þá geturðu komist að því.
Hver er skemmtilegastur í liðinu? Við erum ein stór fjölskylda, og því get ég ekki gert mun á milli þeirra.