VF Spjall - „Er algjör NBA sjúklingur,“ segir Ólafur Aron
Njarðvíkingurinn Ólafur Aron Ingvason stendur þessa dagana í ströngu með Stjörnumönnum í úrslitum Iceland Express deildarinnar í körfubolta. Eftir stórt tap í fyrsta leik náðu Stjörnustrákar að svara fyrir sig og sigra KR-inga í Garðabænum í öðrum leiknum. „Við vissum að við gætum ekki spilað mikið verr en í fyrsta á leiknum móti KR og tókum aðeins til í hausnum á okkur og komum sterkir í leik númer tvö. Þannig að við erum bara brattir og komnir með sjálfstraustið í lag í kjölfar sigursins. Það er frábær stemming í hópnum og allir ná vel saman og það er alltaf líf og fjör hjá okkur sem er lykill að velgengni, ásamt frábærum þjálfara,“ segir Ólafur en eins og körfuboltaáhugamenn vita kannski þá er Njarðvíkingurinn Teitur Örlygsson við stjórnvölin hjá Stjörnunni.
Ólafur hefur starfað sem málari undanfarin misseri en það var fremur lítið að gera í vetur þannig hann lét körfuboltann duga. „En það er allt að byrja á fullu í málningunni núna aftur og hlakka ég mikið til að komast aftur í venjulega rútinu. Svo hef ég verið mikið með 2 ára syni mínum á daginn í vetur eða þangað til ég fer á æfingar á kvöldin.“ Ólafur er búsettur í Njarðvík og ferðast alltaf með Teiti þjálfara á milli til æfinga.
Ólafur hefur smekk fyrir:
Bitinn
„Skyndibitinn er enginn sérstakur, borða nánast bara svoleiðis rusl þannig ég flakka mikið á milli þannig staða. Panda er kannski best þessa dagana hérna í Reykjanesbæ. Annars er hamborgarhryggur alltaf bestur.“
Bókin
„Það er því miður alltof langt síðan ég las bók. Las Raging bull síðast og þótti hún mögnuð.“
Tónlistin
„Hip Hop tónlist aðallega. Dr. Dre, Snoop, Jay-Z, Kanye West, Run DMC og fleiri. Yelawolf er flottur og svo svo eitt rokkband sem ég fíla, þeir heita the Black Keys. Svo hef ég gaman af gamalli sálar og blús tónlist líka.“
Þátturinn
„Hef ekki dottið í neina þætti síðan Prison Break var og hét þannig að ég á nóg að góðu efni inni. Annars er lítill tími í þáttapláp fyrir svona NBA sjúkling eins og mig. King of Queens verður samt klárlega að teljast þáttur númer eitt,“ bætti Ólafur við.
Kvikmyndin
„Sá Due Date síðast og þótti hún yndisleg. Annars eru Godfather myndirnar allar frábærar, The Big Lebowski, Office Space, Scarface ásamt mörgum öðrum. Að ógleymdri Shawnshank Redemption, hún er eins sú allra besta.“
Vefsíðan
„Geri lítið annað í tölvunni en að fara á facebook, nba.com, karfan.is, vol.is, mbl og vísi.“
Mynd: Ólafur ásamt Jökli syni sínum