VF gamalt: Vínarbrauð tekið af bæjarstjórn Reykjanesbæjar
Megrun og heilsa náði inn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar á upphafsárum sameinaðs sveitarfélags Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna.
Megrun og heilsa náði inn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar á upphafsárum sameinaðs sveitarfélags Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna. Í frétt Víkurfrétta árið 4. maí 1994 er sagt frá vínarbrauðslokun.
Í fréttinni segir að bæjarfulltrúarnir Jónína Sanders, Sjálfstæðisflokki og Anna Margrét Guðmundsdóttir, Alþýðuflokki hafi ákveðið að setja bæjarráð sameinaða sveitarfélagsins í megrun. Vínarbrauð sem voru oft á borðum þegar bæjarráðsfundir voru haldnir skyldu ekki vera í boði heldur heilsusamlegra fæði. Þær stöllur töldu öðrum bæjarráðsmönnum trú um að ein vínarbrauðssneið jafngilti 6 til 8 hæfilega smurðum brauðsneiðum.
Jóhann Geirdal, Alþýðubandalagi, sagði það ekki mikla vinnuhagræðingu í því að borða svo margar brauðsneiðar á meðan hægt væri að innbyrða sömu orku í einni vínarbrauðssneið.
Það fylgdi sögunni að sama átak yrði gert á fundum bæjarstjórnarinnar. Ekkert vínarbrauð í kaffipásum.