Verumargur þrettándafagnaður
Þrettándafagnaðurinn í Reykjanesbæ var ekki bara fjölmennur, því fjölmargar verur sem ekki eru mennskar, voru einnig á sveimi um svæðið. Álfakóngur og drottning fóru þar fremst í flokki en einnig voru púkar og tröll af öllum stærðum, ljúf og grimm.
Þrettándinn var hefðbundinn og veðrið lék við bæjarbúa sem ekki létu sig vanta þegar jólin voru kvödd á hátíðarsvæðinu við Hafnargötu.
Hátíðin hófst með skrúðgöngu sem leidd var af álfum frá Myllubakkaskóla. Grýla gamla tók hins vegar á móti hersingunni við hátíðarsvæðið á sama tíma og kveikt var upp í brennu við Bakkalág, sem er svæðið milli Hafnargötu og Ægisgötu. Veislunni lauk svo með flugeldasýningu Björgunarsveitarinnar Suðurnes á Berginu. Upptöku af þeirri sýningu má sjá á fésbókarsíðu Víkurfrétta.
Ljósmyndari Víkurfrétta, Hilmar Bragi, var með myndavélina á lofti á þrettándanum og smellti af meðfylgjandi myndum í safninu hér að neðan af mannfólki og verum úr öðrum heimi.