Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Verslunarmannahelgin: Toppar ekkert Þjóðhátíð í Eyjum
Laugardagur 4. ágúst 2012 kl. 12:00

Verslunarmannahelgin: Toppar ekkert Þjóðhátíð í Eyjum

Guðfinnur Sigurvinsson, fréttamaður á RÚV er feginn að hafa verið orðinn þrítugur þegar hann fór fyrst á Þjóðhátíð í Eyjum, það segir hann hafa verið einstaka upplifun.

Hvað á að gera um verslunarmannahelgina og á að ferðast?
Það er enn nokkuð óljóst, ég er búinn að vera svo mikið á faraldsfæti í sumar.  Ég er til dæmis nýkominn úr tjaldútilegu í Fljótum, þá fórum við og gistum nótt í Flatey á Breiðafirði og þar áður vorum við á Ítalíu. En sennilega er aldrei betra að vera í bænum en einmitt um verslunarmannahelgi.  Andrúmsloftið afslappað og mátulega mikið af fólki á götunum.  Ég hugsa að við verðum bara heima, grillum ef veður leyfir og höfum það notalegt.  Það er þó örlítill möguleiki á að við hendum tjaldinu í skottið og keyrum út á land með hundinn.  En þá elti ég ekki útihátíðir, ég fyndi mér frekar rólegan reit með góðum vinum.  

Er einhver verslunarmannahelgi sem er eftirminnilegri en aðrar hjá þér?

Já, já, það toppar ekkert Þjóðhátíð í Eyjum. Þegar ég var að alast upp þá fór ég bæði í Galtalæk og á Halló Akureyri og fannst ágætt. Það var ekki fyrr en ég var orðinn þrítugur sem ég fór til Eyja og þeirri verslunarmannahelgi gleymi ég aldrei.  Ég er feginn því eftir á að hafa verið orðinn þetta gamall þegar ég fór á Þjóðhátíð.  Ég held ég hafi kunnað að meta hátíðina betur fyrir vikið.  Ég var reyndar vinnandi sem fréttamaður á Sjónvarpinu og við sendum beint út í fréttatímanum frá Herjólfsdal.  Árni Johnsen kom í viðtal og tók lagið, svo bauð hann okkur heim til sín í kjötsúpu.  Þetta var á sunnudagskvöldinu og það stóð til að við tökumaðurinn færum aftur í bæinn beint eftir útsendinguna. Okkur til happs varð svo ofboðslega lágskýjað í Vestmannaeyjum þetta kvöld að ekkert var flogið fyrr en daginn eftir og því var ekkert annað að gera en fara í kjötsúpuna til Árna og skemmta sér svo um kvöldið.  Ég gleymi aldrei brekkusöngnum, blysunum og gleðinni með heimamönnum í hvítu tjöldunum.  Einstök upplifun og mögnuð minning.  

Hvað finnst þér einkenna góða verslunarmannahelgi? Góð verslunarmannahelgi einkennist fyrst og síðast af gleði. Gleði yfir samverunni með góðum vinum, kraftmiklum söng, ljúffengum mat og almennt gleðinni yfir því að vera fullur af lífi.  Mér finnst ómissandi að heyra fréttir af því um verslunarmannahelgi að hátíðarhöldin fari vel fram og fólkið sé glatt og sjálfu sér og öðrum til ánægju.  Annars konar fréttir þessa helgi mega gjarnan missa sín.    

---------

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024