Verslunarmannahelgin: Gítarinn ómissandi
Aníta Ósk vakti athygli fyrir þátttöku sína í dansþætti Ragnhildar Steinunnar á RÚV í vor. Hún ætlar sér að vera í faðmi fjölskyldunnar um helgina. Anítu finnst ómissandi að hafa söng og gítar við höndina um verslunarmannahelgi.
Hvað á að gera um verslunarmannahelgina og á að ferðast?
Það er ákveðin hefð hjá minni fjölskyldu að skella sér upp í bústað í Norðurárdalnum um verslunarmannahelgina. Þar mun ég einfaldlega bara njóta þess að vera með fjölskyldunni, örugglega syngja þó nokkur lög við brennuna sem er haldin þarna ár hvert og njóta þess vel að vera í smá fríi.
Er einhver verslunarmannahelgi sem er eftirminnilegri en aðrar hjá þér?
Já, þegar fjölskyldumeðlimir okkar sem búa í útlöndum komu heim á klakann og voru með okkur yfir verslunarmannahelgina. Það var ekkert smá gaman!
Hvað finnst þér einkenna góða verslunarmannahelgi og finnst þér eitthvað vera ómissandi um þessa helgi?
Það sem mér finnst einkenna góða verslunarmannahelgi er klárlega góður félagsskapur. Það sem er alveg ómissandi við þessa helgi er auðvitað góða skapið og ekki má nú gleyma gítarnum!