Verk sem segja sögu og vísa veginn
Ævintýragarður Helga með alls kyns kynjaverum í Garði.
Í ævintýragarði Helga Valdimarssonar í Garði eru ýmsar kynjaverur í styttuformi sem hann hefur steypt um árabil. Hann lýsir fyrstu styttunni: „Í álögum heitir eitt verk, 18 andlit í kletti stórum og kona sem reynir að frelsa úr álögum. Svo kemur stór og mikil hafmeyja með börnin sín sem kíkir yfir girðinguna þegar maður kemur að. Hún er sýna börnunum hvernig mannfólkið lifir.“
Síðan er ferðalangur sem skírskotar til allra ferðamannanna sem koma í Garðinn. Hann er með farangur, m.a. tösku þar sem merktar hafa verið á gamla mátann borgirnar sem hann hefur heimsótt. Ýmsar aðra smáar og stórar styttur eru í garðinum eftir Helga, s.s. konur þrjár; Eva sem heldur á epli sem hún er að gefa til Adams, nútímakonan - ólétt og með bert á milli og svo gömul kona sem markar endalokin; er að fara á elliheimili með aleiguna með sér.
Svo er Helgi með 20 styttur í kring í garðinum, þ.á.m. Gunnar á Hlíðarenda með öxina Rimmugýgi og fjórar konur sem hann kallar Djúpið. „Þær eru settar niður eftir áttavita og syngja til sjómannanna. Í fjörunni á klöpp neðan við Unuhús er svo Mangi frá Mel, en hann reri héðan lengst allra af Suðurnesjum á opnum bát. Í hæstu flóðum nær sjórinn upp undir haus hjá honum.“
Ljón í fullri stærð í vinnslu
Ýmsar aðrar verur, fólk og dýr, má finna víðar eftir Helga á Suðurnesjum, t.d. í Kaffitári, hjá Grími grallara og við bæjarstjórnarskrifstofuna í Garði eru aðrar fjórar konur sem vísa fólki í réttar áttir. Margir hafa nýtt sér það. „Á vinstri hönd þegar heyrt er inn í Garð er jagúar í fullri stærð sem jagúareigandi keypti af Helga. Úti á Garðskaga er einnig kona sjómannsins sem bærinn á. Svo er Helgi að gera karlljón í fullri stærð sem verður hægt að fylgjast með á vinnustofu hans í ævintýragarðinum. „Það gæti verið skemtilegt fyrir gesti að skoða eitthvað af þessu öllu því það er mikil fjölbreytni í því,“ segir Helgi. Þess má geta að Þorsteinn Jónsson kvikmyndagerðarmaður er að gera heimildarmynd um Helga og verk hans.