Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Verður eitt flottasta  íþróttahús landsins
Laugardagur 22. október 2022 kl. 10:16

Verður eitt flottasta íþróttahús landsins

„Ég var ráðinn í miðju Covid, tók til starfa í maí þegar allt var búið að opna á ný en svo blossaði veiran upp aftur með tilheyrandi lokunum. Þá gerði maður lítið annað en lesa Covid-reglugerðir svo það má alveg segja að starfið hafi verið krefjandi því auðvitað tekur tíma að koma sér inn í hlutina á svo stórum vinnustað,“ segir Jóhann Árni Ólafsson en hann tók við starfi yfirmanns íþróttamannvirkja í Grindavík vorið 2020.

Jóhann segir að hann hafi verið heppinn því forveri hans í starfi, Hermann Guðmundsson, hafi reynst honum mjög vel og geri enn. „Hann kemur í sund flesta morgna og kíkir þá við. Sömuleiðis hefur allt starfsfólk á bæjarskrifstofunni verið mér hjálpsamt svo ég myndi segja að þetta hafi gengið vel til þessa,“ segir Njarð-/Grindvíkingurinn sem er flestum körfuknattleiksunnendum kunnur en hann lék bæði með Njarðvík og Grindavík á sínum ferli, auk þess að hafa leikið með landsliðum Íslands. Jóhann á átján leiki með A-landsliði Íslands.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Valdi körfuna

Jóhann fæddist og ólst upp í Njarðvík og sleit þar barnsskónum. Íþróttir skipuðu strax stóran þátt í lífi hans og æfði hann jöfnum höndum/fótum körfu- og fótbolta en svo kom að því að velja og varð valið nokkuð einfalt, boltanum skyldi skotið ofan í körfu frekar en spyrnt að marki.

Jóhann átti farsælan feril með Njarðvík og varð einu sinni Íslandsmeistari með liðinu og einu sinni bikarmeistari en ákvað svo að söðla um og fór hinum megin við Þorbjörn, eða til Grindavíkur. Þetta var árið 2011 og má segja að um happafeng hafi verið að ræða fyrir þá gulklæddu sem höfðu ekki unnið Íslandsmeistaratitilinn síðan 1996. Sá stóri mætti í hús tímabilið 2011/2012 og leikurinn var endurtekinn ári síðar. Jóhann bætti svo bikarmeistaratitli við árið 2014 svo það má segja að hann hafi skilað sínu til félagsins. Ekki nóg með að hann hafi verið leikmaður, heldur byrjaði hann fljótlega að þjálfa ungviðið og var yfirþjálfari yngri flokkana í sjö ár.

Fann ástina í Grindavík

Jóhann fann sömuleiðis ástina í Grindavík en hann og Petrúnella Skúladóttir eiga saman þrjú börn og hafa skotið rótum í Grindavík. Jóhann tók við starfi yfirmanns íþróttamannvirkja í Grindavík um mitt sumar 2020 og sá tími er samofinn Covid en veiran virtist vera að klárast þegar Jóhann tók við stjórnartaumunum en svo reyndist aldeilis ekki. Því voru miklar áskoranir fólgnar í nýja starfinu og svo bættust skjálftar við sem urðu svo að eldgosi.  Ákveðin eldskírn má segja en Jóhann tók á þessu með sinni stóísku ró og er búinn að koma sér vel fyrir í nýja starfinu.

„Ég er fæddur og uppalinn Njarðvíkingur og mun alltaf líta á mig sem slíkan, þar liggja ræturnar en í leiðinni verður hjartað alltaf gulara og gulara eftir því sem árunum hér fjölgar, ekki síst þegar börnin manns fara að æfa íþróttir. Við Petrúnella erum búin að koma okkur mjög vel fyrir hér í Grindavík og ég sé ekki að breytingar verði á þeim högum á næstunni.  Svo er líka stutt að skjótast í heimsókn til Njarðvíkur.“

Hvað hefur Jóhann verið að gera í Grindavík?

„Ég var í námi þegar ég kom fyrst til Grindavíkur en ég útskrifaðist sem íþróttafræðingur frá HR árið 2013 og þá um sumarið varð ég forstöðumaður Þrumunnar sem er félagsmiðstöð grindvískra ungmenna. Þeirri stöðu gegndi ég næstu ár en tók ársleyfi til að taka mastersgráðu í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði. Þetta allt auðvitað samhliða körfuboltaiðkun- og þjálfun en ég hætti fyrst að spila árið 2019 en kom svo með nett „comeback“ ári síðar. Ég tók við þjálfun kvennaliðs Grindavíkur árið 2018 og kom liðinu strax upp úr 1. deild en við vorum dæmd niður af KKÍ vegna Covid árið eftir.“

Hefur Jóhann einhverju breytt og hvað er framundan?

„Stærsta breytingin hefur verið stytting vinnuvikunar. Það var að sjálfsögðu ekki mín ákvörðun en í samstarfi við starfsfólkið breyttum við vaktaplaninu og það tókst mjög vel og gerði vinnustaðnum gott.

En með nýjum stjórnendum koma oftast breytingar. Hermann forveri minn stóð sig mjög vel en ég hef alveg komið á einhverjum breytingum en hef passað mig á að innleiða þær hægt og rólega. Það var mjög gott að taka námið í vinnusálfræði, það hefur nýst mér mjög vel í þessu nýja starfi og ég tel að starfsfólkið mitt hafi tekið þeim breytingum sem ég hef innleitt vel. Áherslan hefur aðallega snúið að börnum og upplifun þeirra í mannvirkjunum. Nú eru t.d. frjálsari opnunartímar fyrir ungmennin okkar en þau geta æft sig í sinni íþrótt þegar þau vilja, þ.e. þegar laus tími er. Það var í raun ekki mögulegt áður en nýja íþróttahúsið kom til sögunnar. Þetta fyrirkomulag er líka í Hópinu, sem er knattspyrnuhús Grindvíkinga, en þar geta krakkarnir æft sig allan ársins hring. Það er mikil ánægja hjá foreldrum með þetta fyrirkomulag og krakkarnir hafa verið flottir að fylgja þeim reglum sem þarf til að slíkt fyrirkomulag gangi upp.

Það sem er framundan er að klára nýja íþróttahúsið með áhorfendabekkjum og töflu en stefnt er á að hægt sé að leika þar strax á nýju ári. Þetta verður eitt flottasta íþróttahús Íslands og mjög hentugt fyrir áhorfendur en hægt verður að ganga á svalir fyrir ofan áhorfendabekkina innan úr félagsaðstöðu þannig að aðstaðan verður til fyrirmyndar.

Framtíðaríþróttasvæði

Deiliskipulagsvinna er í gangi varðandi framtíðaruppbyggingu á íþróttasvæðinu í Grindavík en fyrir liggur að endurnýja þarf sundlaugina, leggja gervigrasvöll svo það er nóg framundan.

„Það verður fróðlegt að sjá hvernig framtíðarsýnin verður en margar skoðanir eru á lofti um hvernig nýja sundlaugin eigi að vera, hvernig húsnæði fyrir líkamsrækt eigi að vera og margt fleira. Þessi vinna er í gangi, hvenær ráðist verður síðan í viðkomandi framkvæmdir er á borði pólitíkusanna.“

Byrjað er að halda samkomur aftur en íþróttahús Grindavíkur hefur hýst þær síðan Festi var og hét. Jóhann og hans starfsfólk eru því í raun líka að reka samkomustað og huga þarf að ýmsu:

„Þorrablótsnefndin er t.d. byrjuð að huga að blótinu og búið er að halda tvo stóra dansleiki á þessu ári. Nóg framundan, eins og við viljum hafa það,“ sagði Jóhann að lokum.