Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Verður alveg einstakt sumar
Laugardagur 25. maí 2013 kl. 09:21

Verður alveg einstakt sumar

- Bananar með súkkulaði á grillið.

Thelma Rún Matthíasdóttir er 16 ára stúlkukind úr Keflavík. Hún hlakkar til sumarsins sem hún telur að verði alveg einstakt í ár. Hún ætlar sér að vinna í bæjarvinnunni en auk þess er hún í hlutastarfi hjá ömmu sinni sem rekur matvælafyrirtækið Gott í kroppinn. Það versta við sumarið að mati Thelmu, er hversu lengi það er á leiðinni, að öðru leyti er það frábært. Thelma svaraði nokkrum spurningum Víkurfrétta varðandi sumarið.

Hvernig leggst sumarið í þig?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Er farin að hlakka alveg þvílíkt til að skólinn sé að verða búinn og allt fjörið sé að byrja þótt sumarið sé kannski smá seint á ferðinni akkúrat núna.

Hvar verður þú að vinna í sumar?

Ég verð eitthvað í bæjarvinnunni og svo hjá ömmu í Gott í kroppinn ehf, en maður er að leita sér að einhverju skemmtilegu til að gera í sumar.

Hvernig á að verja sumarfríinu?

Held að ég ætli bara að taka því rólega í fótboltanum, blakinu og vinnunni, svo auðvitað eitthvað skemmtilegt með vinunum, held að þetta verði alveg einstakt sumar!

Á að ferðast innan- eða utanlands?

Ætla að ferðast alveg fullt innanlands en utanlands ferðalög geymi ég fram á vetur bara.

Hvað einkennir íslenskt sumar?

Held að það séu allir sammála mér þegar ég segi einstaklega lengi að koma.

Hvað á að gera um verslunarmannahelgina?

Ekkert planað eins og er, kannski maður tjaldi einhvers staðar með vinunum. Hver veit?

Áhugamál þín?

Ég er algjör listamaður, ég elska að mála og hef áhuga á öllu sem kemur ímyndunaraflinu við. Svo eru það auðvitað íþróttir sem eru algjörlega númer 1, 2 og 3 hjá mér.

Áttu þér einhver áhugamál sem þú stundar bara á sumrin?

Ætli það sé ekki bara að liggja í sólinni og leyfa sér að fá smá lit.

Þegar þú heyrir orðið sumarsmellur, hvaða lag kemur upp í hugann?

Eitthvað skemmtilegt sumarlag með Friðriki Dór.

Hvað er það besta við íslenskt sumar?

Gott grillveður á kvöldin, það gerist varla betra en það.

En það versta?

Hvað það er hrikalega lengi að koma, alltaf þessi blessaða rigning hérna.

Hvað fer á grillið hjá þér í sumar?

Pulsur, kjúklingur og kjötbitar, allt mögulegt held ég. Auðvitað skellir maður svo bönunum með súkkulaði á grillið í eftirrétt einhver kvöldin, það er alltaf lang best.

Sumardrykkurinn?

Óáfengur mojito eða Sprite og ávaxtasafablanda sem ég blandaði í fyrrasumar, það verður lengi í uppáhaldi held ég.