Velheppnaður starfsmannadagur í Grindavík
Sameiginlegur starfsmannadagur allra stofnana hjá Grindavíkurbæ var haldinn síðasta föstudag í Eldborg. Þetta er annað árið í röð sem þetta er gert með þessu hætti. Róbert Ragnarsson bæjarstjóri fór yfir niðurstöðurnar frá starfsmannafundinum í fyrra sem tókst afbragðs vel og kom fram í matsblöðum að umræður hefðu verið opnar og jákvæðar. Óhætt er að segja að fundurinn í ár hafi tekist mjög vel.
Fram komu ýmsar ábendingar um þar sem betur mætti fara og hefur verið unnið markvisst eftir þeim niðurstöðum síðasta árið og verður gert áfram. Þá var skipaður starfshópur til að vinna tillögu að gildum Grindavíkurbæjar sem kynnt voru á starfsmannafundinum. Fór Róbert yfir margt af því sem hefur verið gert eins og í stjórnun, mannauðs- og starfsmannamálum, starfsmannaviðtölum, samskiptamálum, skipulagi, í einstaka stofnunum, o.fl.
Tvennt af því sem kom fram á starfsmannadeginum í fyrra var svo til umfjöllunar á starfsmannadeginum síðasta föstudag. Annarsvegar var það vinnuvernd og hinsvegar sí- og endurmenntun og starfsmannaviðtöl. Starfsfólki var raðað niður á borð og eftir framsögur í þessum málaflokkum var farið í umræður. Margt fróðlegt kom þar fram sem verður nýtt til grundvallar áframhaldandi vinnu.
Fleiri myndir hér!