Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Vel sóttur fyrirlestur um skaðsemi kannabis
Fimmtudagur 13. október 2011 kl. 16:49

Vel sóttur fyrirlestur um skaðsemi kannabis

Fimmtudaginn 6. október 2011 var haldinn vel sóttur fræðslufundur í ráðstefnusal Íþróttakademíunnar í Reykjanesbæ. Fundarefnið var Bara gras ? og var m.a. upplýsinga- og fræðslufundur fyrir foreldra um skaðsemi kannabis.

Jón Sigfússon frá Rannsóknum og greiningu sagði frá niðurstöðum nýjustu kannana R og G, en þar kemur m.a. fram að ungmennin okkar t.d. í Fjölbrautarskóla Suðurnesja eru undir landsmeðaltali þegar spurt er um neyslu á ólöglegum fíkniefnum. Fjöldi ungmenna sem þó hefur prófað slík efni er reyndar allt of mikill og það sorglega er að þau hafa greinilega ekki kynnt sér skaðsemi efnanna. Hér er um verðugt verkefni fyrir okkur öll að ræða, að fræða unga fólkið miklu betur um þetta.
Þeir Kristján Geirsson og Guðmundur Baldursson frá Lögreglunni á Suðurnesjum sögðu m.a. frá reynslu lögreglunnar af fíkniefnaneytendum og sölumönnum og ótrúlegum aðferðum þeirra til að ná til unga fólksins m.a. með alls konar tískuvörum sem eru merktar með hassplöntum.

Erlingur Jónsson kynnti starfsemi Lundar og sagði einnig frá persónulegri reynslu sinni og fjölskyldu hans af því að afneita tilvist neyslu sonar. Allt of margir foreldrar hafa gengið í gegnum slíka afneitun og telja sig ekki geta þekkt þau einkenni sem fylgja neyslunni. Hann hvatti foreldra til að leita sér upplýsinga um þetta og horfast svo í augu við vandann ef hann kemur upp.

Í lokin mætti handboltakappinn Logi Geirsson, með sinn alþekkta kraft og húmor, en með alvöruna í bland þegar hann sagði frá samskiptum sínum við börn og ungmenni um allt land. Þar leggur hann áherslu á að þau setji sér skrifleg markmið en geri sér líka grein fyrir margvíslegum og hættulegum hindrunum á leiðinni að þeim góðu markmiðum. Logi staldraði ekki við þar heldur bauð hann sig fram til þess að gerast talsmaður Reykjanesbæjar í forvarnarmálum og sagan segir að fyrirhugað samstarf Loga og Reykjanesbæjar sé nú í vinnslu.

Mynd Nokia N8


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024