Vel sótt söngkvöld í skjóli hárra grenitrjáa
Skógræktarfélagið Skógfell og Norræna félagið í Vogum stóðu fyrir norrænu söngkvöldi í skjóli hárra grenitrjáa á útivistarsvæði Vogamanna í Háabjalla sl. fimmtudagskvöld kl. 20.
Flutt voru sönglög frá Norðurlöndunum og bakað geisivinsælt spýtubrauð yfir glóð á grilli.
Gunnar Guttormsson söng lög frá flestum Norðurlöndunum við harmónikuleik Sigurðar Alfonssonar. Gunnar hefur verið ötlull að kynna norræna söngva, staðið að útgáfu bóka og hljómplatna, þýtt texta og oft komið fram.
Þorvaldur Örn söng einnig á íslensku og norsku og spilaði á gítar og Eyþrúður Ragnheiðardóttir lék með á fiðlu.
Dreift var söngtextum og söng fólk með í sumum laganna, en flestir textarnir voru á íslensku.
Veðrið var ljúft og stemmingin sömuleiðis. Þarna mættu 35 manns á aldrinum sjö ára til sjötugs. Viðburðurinn var hluti af fjölskyldudögum í Vogum.