Vel mætt í fyrstu Reykjanesgönguna
Fyrsta Reykjanesganga sumarsins var farin miðvikudaginn 5. júní. Göngudagskráin var kynnt í Bláa Lóninu þar sem Rannveig Garðarsdóttir, leiðsögumaður, lýsti göngunum og fór yfir mikilvæga þætti fyrir þátttakendur.
Göngurnar eru styrktar af HS Orku hf, HS Veitum hf og Bláa Lóninu hf. Víðir Jónsson, kynningarstjóri HS Orku hf. sagði við þetta tækifæri að það væri ánægjulegt fyrir HS Orku hf að hafa komið að verkefninu frá upphafi og geta með þessum hætti hvatt til þess að fólk kynntist einstakri náttúru svæðisins.
Hópurinn gekk m.a. nýjan göngustíg sem liggur á milli Bláa Lónsins og Grindavíkur. Stígurinn ber nafnið Orkustígur frá Bláa Lóninu og að Selskógi og Ingibjargarstígur frá Selskógi til Grindavíkur. Stígurinn er samstarfsverkefni HS Orku hf., Bláa Lónsins hf og Grindavíkurbæjar, sem kostuðu gerð hans. Magnea Guðmundsdóttir, kynningarstjóri Bláa Lónsins sagði að aðkoma Bláa Lónsins að gönguverkefninu væri þýðingarmikil fyrir fyrirtækið og það væri jafnframt ánægjulegt að Orkustígurinn væri hluti af fyrst göngu sumarsins.
Auk styrktaraðilanna eru Víkurfréttir, Hópferðir Sævars og 66°Norður og Björgunarsveitin Suðurnes samstarfsaðilar verkefnisins.