Vel heppnuð Skötumessa
„Endalaust þakklæti er efst í huga allra sem komu að og voru gestir á Skötumessunni í Garði. Það tókst allt svo vel, frábær matur og skemmtiatriði hvert öðru betra fyrir fullum sal af fólki. Samfélagslegur stuðningur stendur eftir sem gleði í hverju hjarta. Takk fyrir okkur þið voruð frábær,“ sagði Ásmundur Friðriksson, á Facebook síðu sinni eftir vel heppnaða Skötumessu 2022.
Uppselt var á Skötumessuna en hátt í 500 manns mættu í Gerðaskóla og borðuðu kæsta skötu, salfisk og viðeigandi góðgæti á Jónsmessu.
Ásmundur hefur í mörg ár staðið að hátíðinni með vinum sínum og mörgum stuðningsaðilum. Auk ljúffengs matar nutu gestir skemmtiatriða. Ungir sem eldri söngvarar tróðu upp. Páll Rúnar Pálsson söng eins og oft áður en svo komu ungir peyjar og vöktu athygli fyrir skemmtielga framkomu og góðan söng en það voru þeir Jón Arnór og Baldur. Dói og Baldvin léku harmónikkutónleik þegar gestir komu í salinn og þá söng Sísí Ástþórs við undirleik Kristjáns R. Guðnasonar. Kórinn Smaladrengirnir frá Kjalarnesi komu fram og Sigurður Tómasson var ræðumaður kvöldsins.
Hátíðin er góðgerðarviðburður og að venju var styrkjum úthlutað á kvöldinu til hinna ýmsu félagasamtaka og aðila. Á meðal þeirra sem fengu styrki í ár voru Ferðasjóður Nes, Velferðarsjóður Suðurnesja, Knattspyrnufélagið Víðir í Garði, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, ferðasjóður Bjargarinnar, dagdvöl aldraðra í Garði, Krabbsmeinsfélag Suðurnesja og ýmsir einstaklingar.
Helstu stuðningsaðilar Skötumessunar eru Skólamstur, Suðurnesjabæar, Icelandair og fleiri auk gesta sem mæta á viðburðinn. Páll Ketilsson var einn gestanna á Skötumessunni og mundaði myndavélina. Myndasafn fylgir fréttinni og myndskeið.