Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Vel heppnuð forsetaheimsókn - myndaveisla
Fimmtudagur 9. maí 2019 kl. 12:12

Vel heppnuð forsetaheimsókn - myndaveisla

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og kona hans, Eliza Reid fengu hlýjar mótttökur hjá íbúum Reykjanesbæjar þegar þau komu í opinbera heimsókn til sveitarfélagsins en þetta er í fyrsta sinn sem forseti Íslands gerir það. Þau heimsóttu tuttugu staði og fyrirtæki í tvo daga og fengu nasaþefinn af mögnuðu mannlífi og frísklegu atvinnulífi Reykjanesbæjar.

Fyrsti viðkomustaðurinn var Skólamatur þar sem þau fengu að skoða og heyra um starfsemi þessa frumkvöðlafyrirtækis sem nú fagnar 20 ára afmæli. Þaðan lá leið þeirra í Duus-hús og byrjuðu á því að skoða Gömlu búð sem er í uppbyggingu. Þau voru síðan við setningu listahátíðar barna í Duus-safnahúsum og þar var þeim auðvitað vel tekið af hundruðum barna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Forsetahjónin sóttu síðan heim ráðhús Reykjanesbæjar og litu við á foreldramorgni, heilsuðu upp á starfsmenn bæjarins en þaðan lá leiðin í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Þar steig forsetinn í pontu og ræddi við nemendur og bauð þeim að spyrja um hvað sem var og það gerðu þeir. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja var næsti viðkomustaður en síðan hittu forsetahjónin ungt íþróttafólk í Reykjaneshöll og fimleikahöll. Ekki gat forsetinn komið án þess að skoða rokksöguna í bítlabænum en það gerði hann í Hljómahöll og þar fylgdist hann líka með ungu tónlistarfólki í glæsilegum tónlistarskóla. Þau hjónin hlustuðu svo á tónlistaratriði á menningarsamkomu og kaffisamsæti þar sem bæjarbúum var öllum boðið að sækja. Dagurinn endaði svo í stuttu boði í Víkingaheimum.

Á öðrum degi opinberrar heimsóknar heimsóttu forsetahjónin nokkra staði á Ásbrú, m.a. Geo Silica, Keili, Háaleitisskóla og Hæfingarstöðina. Því næst fóru þau í Fjölsmiðjuna við Iðavelli og nýtt bardagahús og enduðu opinbera heimsókn á Nesvöllum þar sem eldri borgarar bæjarins tóku á móti þeim með kostum og kynjum.

Forsetahjónin voru alsæl með heimsóknina og segja að íbúar Reykjanesbæjar þurfi ekki að kvíða framtíðinni miðað við mannlífið og kraftinn sem hér sé. Víkurfréttir hittu forsetahjónin í lok heimsóknar og ræddu við þau um heimsóknina til Reykjanesbæjar. Þau eru gestir Víkurfrétta í Suðurnesjamagasíni sem verður sýndur á Hringbraut og vf.is kl. 20.30 á fimmtudagskvöld.

Hér eru tvö vegleg myndasöfn frá heimsókn forsetjahjónanna til Reykjanesbæjar.

Myndasafn 1
Myndasafn 2

Forsetahjónin voru hrifin af starfinu í Dósaseli.

Forsetahjónin Guðni og Eliza með bæjarstjórahjónunum, Kjartani Má og Jónínu Guðjónsdóttur.

Tómas Young kynnti Hljómahöllina. Þau voru hrifin af tónlistarhefðinni í bænum.

Forsetahjónin eiga fjögur börn, yngsta 4 ára. Forsetinn fór á dagmömmumorgna þegar yngsta barnið hans var lítið. Þau heilsuðu upp á unga foreldra í bókasafninu.

Íþróttastarfið er viðamikið í Reykjanesbæ. Forsetinn er duglegur að fara á íþróttamót með sínum börnum og hér er hann með knattspyrnudrengjum úr Njarðvík og í heimsókn í fimleikahöllinni.

Á Heilbrigðisstofnun var þessi mynd af Guðna uppi á vegg. Hann kynntist starfsemi HSS og ræddi við starfsfólkið.

Guðni fékk nýtt buff í safnið frá Keili á Ásbrú og er hér með starfsfólkinu sem setti upp Keilisbuff fyrir hann.

Forsetinn heimsótti Hæfingastöðina og heilsar hér upp á Ástvald Ólafsson.

Fida í Geo Silica gaf forsetahjónunum gjafir í tilefni af heimsókn þeirra til hennar.

Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi Reykjanesbæjar sagði frá menningu og listum í Reykjanesbæ.

Það var verið að útbúa plokkfisk í Skólamat en það var fyrsta fyrirtækið sem hann heimsótti.