Vel heppnað sagnakvöld á Nesvöllum
Um 300 manns mættu á vel heppnað sagna- og söngvakvöld á Nesvöllum í tilefni Ljósanætur. Sögumenn fóru á kostum og mikið var hlegið. Ásmundur Friðriksson stjórnaði kvöldinu en fyrstur í pontu var Sigurjón Vilhjálmsson sem sagði skemmtilegar sögur m.a. af Helga og Jórunni frá Njarðvík. Næstur var svo Jón Borgarson úr Höfnum en hann lumar alltaf á nokkrum góðum ljóðum og leyfðí áheyrundum að njóta.
Ásmundur Friðriksson, verkefnastjóri og listamaður sagði sögur úr eyjum og náði að kitla hláturtaugar gesta Nesvalla.
Árni Johnsen, alþingismaður og Guðni Ágústson fyrrverandi landbúnaðarráðherra fóru einnig á kostum m.a. með sögum frá alþingi og skutu á hvorn annan í léttum tón.
Að lokum tók Árni upp gítarinn sinn og stjórnaði fjöldasöng og salurinn tók undir. Það voru ánægðir gestir sem yfirgáfu Nesvelli í gær eftir skemmtilega kvöldstund með mönnum sem kunna að segja frá.
Myndir-VF/IngaSæm