Vegleg gjöf til Hæfingarstöðvarinnar á Ásbrú
Nýlega barst Hæfingarstöðinni á Ásbrú vegleg gjöf frá Styrktarsjóði í minningu Sigurbjargar að upphæð 2.060.000. Um hundrað fyrirtæki á Suðurnesjum lögðu verkefninu lið með ýmsum hætti. Styrkurinn var nýttur til að kaupa tæki til að prenta á ýmsa hluti, eins og boli, húfur, innkaupapoka o.fl. Hugmyndin er að selja vörurnar á vægu verði og eru þær komnar til sölu í Nettó Krossmóa sem gefur eftir álagninguna. Allur ágóði rennur til Hæfingarstöðvarinnar.
Upphaf málsins er það að fyrir rúmu ári hafði þáverandi forstöðumaður Hæfingarstöðvarinnar á Ásbrú samband við sjóðinn þar sem hann hafði fengið upplýsingar um að sjóðurinn hefði áhuga að styrkja fólk með skerta starfsgetu. Í framhaldi af því var farið af stað með þessa söfnun. Upphaflega var ætlunin að gera þetta með Sigurbjörgu sem sjóðurinn heitir eftir en því miður lést hún áður en verkefnið var farið af stað. Sigurbjörg Axelsdóttir var fyrsti kjörni kvenkyns fulltrúi í bæjarstjórn Vestmannaeyja og lét svona verkefni sig mikið varða. Eftir andlát hennar tók sonur hennar, Óskar Axel Óskarsson, við kyndlinum ásamt eiginkonu sinni, syni sínum Óskari Axel yngri og félögum hans. Þeir sem vilja kynna sér verkefnið betur og styðja þetta frábæra verkefni þar sem verið er að safna fyrir hráefnum til að prenta á hvetjum er fólk hvatt til að leggja leið sína í Nettó Krossmóum og skoða varning sem er til sölu þar og sjá myndbandið. Ágóðinn rennur síðan til hráefnis kaupa fyrir Hæfingarstöðina í Ásbrú, það skal sérstaklega tekið fram að Nettó gefur alla álagningu í sjóðinn.