Vegir liggja til allra átta ... frá Arizona
Óskar M. Jónsson flutti til Bandaríkjanna fyrir 25 árum síðan og starfar þar sem fasteignasali. Hann segir í samtali við Víkurfréttir að þrátt fyrir COVID-19 sé brjálað að gera þessa dagana. Auk þess að selja fasteignir er Óskar heiðurskonsúll Íslands í Arizona. „Og þegar ég hef ekkert að gera þá er ég einnig knattspyrnudómari,“ segir Óskar og hlær. Hann segir að það sé nóg að gera og það komi fyrir að hann dæmi fjóra leiki á viku. Dómgæsla er eitthvað sem hefur fylgt Óskari í áratugi því þegar hann bjó á Íslandi lét hann að sér kveða í handboltadómgæslu.
Keypti miða aðra leiðina til Bandaríkjanna
Óskar hefur verið í Arizona í Bandaríkjunum í rétt tæpan aldarfjórðung. Hann hefur alltaf haft amerískt ríkisfang, því faðir Óskars var bandarískur. Hann segist í samtali við Víkurfréttir hafa tekið þá ákvörðun einn daginn að flytja til Bandaríkjanna og hefur búið ytra síðan þá. „Ég er fæddur með bandarískt ríkisfang og árið 1995 keypti ég mér farmiða aðra leiðina út til Arizona og hef aldrei viljað snúa aftur.
– Hvers vegna Arizona?
„Systir hennar mömmu, sem er íslensk, hefur búið hér í Arizona í 50–60 ár, svo átti ég vin sem ég kynntist á Keflavíkurflugvelli sem átti heima hér í Tucson. Ég byrjaði því á að búa í Tucson en eftir að ég útskrifaðist úr University of Arizona þá flutti ég hingað á Phoenix-svæðið.“
– Þetta gerist ekki mikið amerískara en að vera þarna í Arizona. Við hér á klakanum sjáum bara fyrir okkur kúrekamyndir.
Óskar hlær af athugasemd blaðamanns og segir svo: „Það hefur margt breyst síðan allar þessar kúrekamyndir voru teknar upp. Það búa sjö milljónir manna hér í Arizona.“ Hann segist aldrei hafa horft í baksýnisspegilinn og það hafi aldrei komið til tals að flytja aftur til Íslands. Hann kemur þó reglulega til Íslands, oftast árlega en lætur ekki líða meira en tvö ár á milli Íslandsferða.
„Þannig losa ég um þessa heimþrá til Íslands. Þegar maður er búinn að vera á Íslandi í viku þá er maður líka kominn með nóg og til í að fara aftur til Bandaríkjanna.“
Með fasteigasöluna á efri hæðinni
– Hvernig ganga dagarnir fyrir sig hjá fasteignasala í Arizona?
„Ég er að vakna um klukkan sjö á morgnana og fer á skrifstofuna sem er á efri hæðinni í húsinu mínu og sinni þeim málum sem eru á skrifborðinu hverju sinni. Dagarnir eru aldrei eins. Það þarf að fara út úr húsi og sýna eignir. Stundum tekur það þrjá klukkutíma að keyra á stað þar sem þarf að sýna eign og stundum tekur það fimm mínútur. Dagurinn hjá mér getur verið rosalega breytilegur. Þegar fótboltinn er í gangi þá dæmi ég á sunnudags- og mánudagskvöldum.“
Óskar byrjaði að starfa sem fasteignasali fyrir ellefu árum síðan. Áhuginn á fasteignasölu hófst þó fyrr en hann byrjaði að fjárfesta fyrir þrettán, fimmtán árum síðan. Hann keypti sér m.a. tvö hús Detroit í Michigan og í hruninu 2008 náði Óskar sér í fasteignasalaleyfi.
„Fyrstu þrjú árin voru erfið en þegar maður hefur starfað svona lengi sem fasteignasali þá þekkja mann orðið margir og megnið af þeim sölum sem ég er að gera í dag eru fyrir fólk sem ég hef haft áður sem viðskiptavini. Ég þarf því lítið að auglýsa mig á þessu svæði.“
Fólk hamstrar vörur
– Hvaða áhrif hefur kórónuveirufaraldurinn verið að hafa á þínu svæði?
„Hérna var öllu lokað mjög snemma og á þessu sjö milljóna manna svæði hafa komið upp rúmlega tuttuguþúsund tilfelli. Það eina sem hefur verið að trufla daglegt líf hjá mér er að fólk er að hamstra vörur í verslunum, þannig að ákveðnir vöruflokkar hafa ekki verið til. Ríkisstjórinn hér sagði að fasteignasalar væru ein af þeim starfsstéttum sem ættu ekki að stoppa, þannig að ég þurfti aldrei að hætta að vinna. Satt að segja þá hefur verið brjálað að gera hjá mér síðustu tvo til þrjá mánuði.“
Óskar segir að allar fasteignir seljist vel. Það séu helst stærstu húsin sem gangi ekki eins vel að selja. Kaupendur séu fólk á öllum aldri en um þessar mundir séu margir að flytja frá Kaliforníu og vilja setjast að í Arizona og Texas. Áður en kórónuveirufaraldurinn byrjaði voru 200–300 manns að flytja á Phoenix-svæðið á hverjum degi. Spurður um fasteignaverð á svæðinu segir Óskar að 150 fermetra hús kosti á bilinu 250.000–400.000 dollara en það ræðst af staðsetningu.
Giftur og á tvær dætur
Óskar er giftur og á tvær dætur. Eiginkonan er hjúkrunarfræðingur og eldri dóttirin er í skóla í Norður-Dakóta þar sem hún er að læra hjúkrunarfræði. Yngri dóttirin er á þriðja ári í framhaldsskóla. Óskar segir fjölskyldulífið ganga vel en hafa breyst mikið þegar eldri dóttirin fór í námið en hún er á knattspyrnusamningi við skólann, lærir hjúkrunarfræði og spilar knattspyrnu fyrir skólann. Yngri dóttirin leikur einnig knattspyrnu og segir Óskar að það sé í nógu að snúast í ferðum á milli skóla og knattspyrnuvalla.
– Hvernig kemur þessi knattspyrnudómgæsla til hjá þér?
„Ég var handboltadómari heima á Íslandi og hafði alltaf rosalega gaman af því. Ég spilaði bæði handbolta og fótbolta á Íslandi. Þegar ég kom til Arizona þá var enginn handbolti hér þannig að ég fór aðeins í fótboltann. Mér tókst hins vegar að snúa svo svakalega á mér ökklann að ég gat ekki spilað lengur, þannig að ég ákvað að fara í dómgæslu, svo ég gæti verið áfram í boltanum.“
Óskar segist hættur að dæma unglingaknattspyrnuleiki. Það sé aðallega vegna þess að það sé orðinn svo mikill væll í foreldrum, segir hann og hlær. Í dag er hann að dæma í deildum knattspyrnumanna, sem þekkjast sem Old Boys á Íslandi. Á haustin dæmir Óskar svo í þrjá mánuði í háskólaboltanum og í kringum áramót tekur framhaldsskólaboltinn við.
Yfir 300 golfvellir á svæðinu
Knattspyrna er orðin rosalega vinsæl íþrótt í Bandaríkjunum og hefur sprungið út á síðustu árum. Það eina sem stendur knattspyrnunni fyrir þrifum er að krakkarnir eru að hætta á aldrinum sextán til átján ára. Margir skólar bjóða þó ungu knattspyrnufólki skólastyrki gegn því að spila með liði skólans. Þannig leikur yngri dóttir Óskars knattspyrnu með sínu félagsliði hluta úr ári og þrjá mánuði á ári leikur hún með liði skólans.
– Er einhver tími fyrir önnur áhugamál?
„Ég er kylfingur líka og reyni að spila golf tvisvar til þrisvar í mánuði og stundum meira. Það fer allt eftir því sem er að gerast hverju sinni.“
– Eru fínir golfvellir þarna?
„Það eru ekki nema rúmlega 300 golfvellir í Arizona. Ég spila mikið golf á sumrin því þegar ferðamenn eru hérna frá október og fram í apríl þá þrefaldast og jafnvel fjórfaldast það verð sem þarf að borga fyrir að spila golfvellina. Það er heitara hér yfir sumarmánuðina en allt í lagi.“
Þegar við tókum viðtalið við Óskar í byrjun júní sýndi hitamælirinn 42 gráður á Celsius. Hann segir rosalega heitt í þrjár mánuði á ári en það sé loftkæling út um allt. Á golfvellinum sé hins vegar bara kæling í bjórnum, segir hann og hlær.
Undanfarnar vikur hafa verið róstur víða í Bandaríkjunum vegna lögregluofbeldis. Óskar hefur lítið orðið var við þau læti þar sem hann býr. Á nálægu svæði hafi þó verið unnin skemmdarverk þar sem skemmdarvargar voru fluttir á svæðið til þess eins að fremja skemmdarverk.
Hawaii uppáhaldsstaðurinn
– Hvað ætlar þú að gera í sumar og hvernig er ferðalögum háttað núna í Bandaríkjunum?
„Það er lítið í gangi þessa dagana og maður veit ekki alveg hvað maður getur gert. Ég á bókaða ferð til Kansas City í Missouri núna í júlí.“
Þá á Óskar bókað ferðalag til Maui á Hawaii í ágúst og til Honolulu á Hawaii í október. „Hawaii er okkar uppáhaldsstaður til að fara á í ferðalög. Það er svona okkar að ferðast innanlands að fara þangað, þó svo það sé sex til sjö klukkustunda flug.“
Óskar segir Phoenix vera mjög miðsvæðis í Bandaríkjunum. Það taki „ekki nema“ sex klukkustundir að keyra til San Diego og sama tíma til Los Angeles, fjóra tíma til Las Vegas. Hann segir að það sé hægt að komast á skíði í rúmlega tveggja tíma fjarlægð og ef þú vilt fara á ströndina í Mexíkó, þá tekur það ekki nema þrjá og hálfan klukkutíma.
Heitt í nokkra mánuði en restin er paradís
Sumarmánuðirnir þrír eru heitir en restina af árinu eru 15–30 gráður, sem er bara þægilegt. „Ég segi við fólk sem er að koma hingað að það sé rosalega heitt í þrjá til fjóra mánuði en restin er bara paradís.“
Óskar er ekki eini Íslendingurinn í Arizona. Hann giskar á að þeir séu á bilinu 200–300 talsins. Hann segir margar íslenskar konur hafa flutt til Bandaríkjanna í gegnum tíðina, giftar bandarískum hermönnum. Þær hafa margar sest að í Arizona. Þá eru einnig nokkrir Íslendingar sem hafa sest að á svæðinu eftir að hafa farið til náms í Arizona. Óskar segir að hópurinn sé að hittast og haldi árlegt þorrablót í febrúar en Íslendingafélagið á svæðinu sé að hittast tvisvar til þrisvar sinnum á ári.
Vatn og vodka frá Íslandi í búðum
Spurður út í íslenskar vörur í Arizona þá segir Óskar að hann sjái íslenskt vatn í verslunum. Þá er Reyka Vodka í búðum og á börunum. Einstaka sinnum sjái hann íslenska ýsu og þorsk í matvörubúðum og þar með sé það upptalið. Fyrir nokkrum árum kom íslenskt lambakjöt í verslanir á haustmánuðum en það séu nokkur ár síðan það hætti. Þá sjáist skyr sem heitir Siggi’s. Það sé íslenskt að uppruna en framleitt í New York.
Aðstoðar með golfferðir
Að endingu segist Óskar tilbúinn til að hafa milligöngu fyrir íslenska kylfinga sem vilja koma í golf í Arizona. Þeim sé velkomið að hafa samband ef þeir vilji komast á einhverja af þeim rúmlega 300 golfvöllum á svæðinu.