Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Var mjög feimin sem barn,“ segir Jana María leikkona sem gerir það gott á leiksviðinu
Föstudagur 5. ágúst 2011 kl. 12:59

„Var mjög feimin sem barn,“ segir Jana María leikkona sem gerir það gott á leiksviðinu

Keflvíkingurinn Jana María Guðmundsdóttir er að gera það gott um þessar mundir. Hún leikur í nýrri uppfærslu á Hárinu í Hörpunni en hún ásamt leikhópnum Silfurtunglinu settu sýninguna á svið á Akureyri fyrr á árinu. Sýningin hefur hlotið mikið lof og Jana segir aðsókn hafa farið fram úr þeirra björtustu vonum. Hún er sjálfstætt starfandi um þessar mundir en starfar fyrir Silfurtunglið sem er listahópur samanstendur af Jóni Gunnari leikstjóra, Matthíasi Matthíassyni og Eyþóri Inga söngvurum og henni sjálfri en þau stofnuðu flokkinn til að skapa sér verkefni og eru fleiri verk framundan hjá þeim hóp.

Jana María Guðmundsdóttir er menntuð leikkona frá Royal Scottish Academy of Music and Drama í Glasgow, útskrifuð í júlí 2009. Hún hefur áður lokið burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Dóru Reyndal og fornámi í myndlist frá Myndlistaskólanum í Reykjavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jana María kom fram í leikverkunum Lilja, Saga Dátans, Lykillinn að jólunum og Rocky Horror ásamt því að koma fram og sinna hugmynda- og undirbúningsvinnu fyrir leiklestrarröð LA, leikhússportkeppni, ljóðakvöld, tónleika sem og ævintýramorgna fyrir yngstu leikhúsgesti LA meðan hún starfaði hjá Leikfélagi Akureyrar.

Hún kemur reglulega fram sem söngkona og á síðasta ári setti hún m.a á svið tónleikaröðina Sögulegir söngfuglar en þar heiðraði hún gömlu söngkonurnar okkar, Ellý Vilhjálms, Helenu Eyjólfs og Ingibjörgu Þorbergs þar sem hún sagði sögur af þeim ásamt því að syngja lögin sem þær voru þekktastar fyrir að flytja. Hún segir jafnvel verða áframhald af því verkefni.

Jana er með mörg járn í eldinum og hefur verið að sýsla við ýmislegt síðan hún lauk leiklistarnámi í Skotlandi fyrir tæpum tveimur árum síðan. Hún segist hafa verið mjög feimin sem barn en ávallt verið að sniglast í kringum leikhúsið þar sem faðir hennar var mjög virkur. Hún lék t.a.m ekkert hér með leikfélaginu og ekki heldur með Vox Arena í Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Hún segir sönginn hafa verið það sem opnaði dyrnar í leiklistinni fyrir henni og einnig starf hennar sem flugfreyja en þar þurfti hún að takast á við ýmislegt krefjandi.

Hún var fastráðin í leikfélagi Akureyrar í eitt ár og bjó þar en hún er nú komin aftur suður þar sem hún hyggst takast á við ný og spennandi verkefni en hún kennir leikist og söng hjá Leynileikhúsinu.

Nánara viðtal við Jönu Maríu mun birtast innan tíðar hjá Víkurfréttum.