Var hrifin af öllum kertaljósunum
Heiða Sæbjörnsdóttir, Suðurnesjabæ:
„Maður var manns gaman og samveran mikilvæg en lítið sem ekkert um gjafir á jólum,“ segir Heiða Sæbjörnsdóttir, Suðurnesjabæ þegar hún rifjar upp jólin þegar hún var lítil stelpa.
„Ég fæddist árið 1937 á Nýjabæ undir Sandvíkurheiði, á milli Bakkafjarðar og Vopnafjarðar. Þetta var lítill sveitabær, hálfgerður torbær en samt þiljaður að innan. Í eldhúsinu var móeldavél, þar sem brenndur var mór en annað eldhús var á hlóðum. Það var notað í haustverkin, sláturgerð og flatkökubakstur sem dæmi. Ekkert rafmagn var á bænum okkar, aðeins kalt rennandi vatn og ekkert klósett eða útikamar heldur var koppur úti í fjósi. Hlandinu var safnað í kerald eða tunnu og geymt úti í einhverju horni en það var notað við ullarþvott því ullin varð svo hvít og hrein á eftir. Því næst var ullin skoluð í ánni. Svona var þetta þá og lækurinn notaður til að þvo fötin af okkur á þvottabretti sem pabbi smíðaði. Pabbi okkar var mjög handlaginn og smíðaði allt. Hann var bæði söðlasmiður og járnsmiður. Á bænum var ein belja, eitthvað af kindum og geitum og nokkrar hænur. Silungur var í ám og vötnum. Við vorum tíu systkini og ég var númer átta í röðinni. Elsta systir mín, Eyja er 96 ára og býr hér í Sandgerði eins og ég en foreldrar okkar fluttu hingað árið 1945 með börnin sín. Það var snjóþungt á Nýjabæ þar sem við bjuggum og enginn bílvegur til okkar. Við áttum tvo, þrjá hesta sem við notuðum til að komast til byggða. Ef farið var til Bakkafjarðar um vetur, til að sækja varning, þá var sleði festur aftan við hestinn en á sumrin var mun léttara að fara á hestbaki. Annars var labbað þangað sem við ætluðum. Mamma mín var blind og ég man ekki eftir henni öðruvísi en með litla sem enga sjón en hún bjargaði sér alveg ótrúlega vel. Hún þurfti stundum að fara til Reykjavíkur til læknis vegna þessa en það var ekki hlaupið að því og tók hana marga mánuði þegar hún fór þangað. Strandskipið kom aðeins á þriggja mánaða fresti til Vopnafjarðar svo þetta var allt mjög tímafrekt.“
Við sungum sálma um jól
„Jólin voru mjög hátíðleg en við vorum innilokuð í snjó á þessum árstíma. Allir voru þvegnir og kannski fékk maður eina nýja tusku, svo maður færi ekki í jólaköttinn, allavega sokka eða brók. Við sungum sálma en pabbi kunni alla sálmana. Svo var jólaguðspjallið lesið upphátt. Ég man að ég hlakkaði mest til ljósanna um jólin. Það var ekki verið að misnota kertin, þau voru spöruð alla daga nema á jólum, þá voru þau fleiri sem loguðu. Maður fékk kannski eitt kerti í jólagjöf, jafnvel var ein sögubók gefin sem einhver las upp úr fyrir alla fjölskylduna. Gjafir voru heimasmíðaðar af pabba mínum, ég man eftir sprellukarli og fuglum úr beini, hestum og allskonar dýrum. Þetta voru leikföngin okkar. Ég man ég var svo hrifin af öllum ljósunum um jólin, meðal annars á jólatrénu sem pabbi hafði búið til úr spýtum og vafði greinum ef það var hægt að finna þær úti fyrir snjó. Annars var notast við litaðan pappír til að skreyta greinarnar. Kertin voru sett á arma trésins og þau lýstu upp stofuna. Við bjuggum til litla poka til að hengja á jólatréð, það gerði voða mikið að hafa tré. Við borðuðum hangikjöt og eitthvað var af laufabrauði. Engir ávextir voru til þá, þeir voru ekki komnir til okkar en við fengum kannski rúsínur og sveskjur. Það var mikið af leikjum sem við fundum upp á. Telja stjörnurnar á himninum, fara með vísur sem byrjuðu á einhverjum ákveðnum staf. Oft voru þrautir og leikir. Pabbi okkar var mjög glaðsinna og fann alltaf upp á einhverju til að skemmta okkur með. Maður var manns gaman og samveran mikilvæg.“