Valgeir fyrsti tenór í hálfa öld með Karlakór Keflavíkur
Karlakór Keflavíkur fagnar 70 ára afmæli kórsins með hátíðartónleikum í Stapa á morgun, laugardag. Valgeir Jóhannes Þorláksson hefur sungið með Karlakór Keflavíkur í hálfa öld. Hann byrjaði að syngja með kórnum árið 1973 eftir að Haukur Þórðarson hafði komið í bakaríið til Valgeirs og spurt hvort hann vildi ekki syngja með kórnum.
„Hann var að koma með vörur til mín í bakaríið og spurði hvort ég gæti ekki komið í kórinn. Þar sem ég hafði verið í kór fyrir norðan var ég mjög feginn að fara í kórinn. Þetta var 1973 þannig að það eru komin 50 ár síðan.“
Hvernig finnst þér kórinn hafa þróast á þessum tíma?
„Mér finnst hann alltaf hafa verið svipaður. Auðvitað koma lægðir og hæðir en þegar blásið er til utanlandsferða, þá fyllist bekkurinn.“
Þegar þú byrjar í kórnum 1973, þá varstu fimmtíu árum yngri en í dag. Hvernig var aldurinn í kórnum þá?
„Hann var svolítið fjölbreyttur. Það var dálítið mikið af eldri mönnum, sem var bara mjög gott. Það var eins þegar ég gekk í landssamband bakarameistara, þá var ég bara litli strákurinn þeirra og þeir héldu utan um mig. Það var alveg eins hér í kórnum.“
Valgeir syngur fyrsta tenór í Karlakór Keflavíkur og hefur alltaf gert. „Ég byrjaði í Karlakórnum Þrym þegar ég var 16 ára og þar söng ég fyrsta tenór. Ég var ekki prófaður einu sinni, ég fór bara í fyrsta tenór.“
Þú hefur svo tekið þetta aðeins lengra, skelltir þér í tónlistarnám og ert að læra söng.
„Já, ég hef svo mikinn áhuga á þessu. Þess vegna dreif ég mig í skólann og er að læra söng. Ég söng konsert síðasta vor og ætla vonandi að syngja aftur næsta vor.“
Nú eruð þið að skipuleggja afmælistónleika. Hvernig eru þeir að leggjast í þig?
„Bara mjög vel. Ég vona að fólki finnst þetta skemmtileg dagskrá. Okkur finnst hún skemmtileg. Fyrsta lagið verður Suðurnesjamenn. Næsta lag á dagskránni verður fyrsta lag Karlakórs Keflavíkur fyrir 70 árum síðan. Þar syng ég smá einsöng,“ segir Valgeir og þegar hann er spurður hvernig það sé að fá að rísa þannig upp úr hópnum þá segir hann það löngu tímabært og hlær við. Valgeir segist hafa gaman af kórsöngnum og á ekki von á öðru en hann muni starfa áfram með Karlakór Keflavíkur í mörg ár í viðbót. Hann gefi sér þann tíma að mæta tvisvar í viku á kóræfingar, þó svo það hafi aldrei verið eins mikið að gera hjá honum og núna eftir að hann settist í helgan stein frá bakaraiðninni.