Valdimar með nýtt lag og myndband
-Gefa út nýja plötu í október
Hljómsveitin Valdimar gaf nýverið út nýtt lag Læt það duga en myndband við lagið var frumsýnt í kjölfarið. Stefnt er á að ný plata líti dagsins ljós í október en síðasta plata hljómsveitarinnar Um Stund kom út árið 2012 og var valin önnur besta íslenska plata ársins af hlustendum Rásar 2. Hljómsveitin hefur lítið verið að spila á tónleikum þar sem tveir meðlimir hljómsveitarinnar eru í námi erlendis, en það hefur eiginlega alltaf verið þannig að einhver sé úti í námi yfir veturinn.
Í samtali við Víkurfréttir sagði söngvari hljómsveitarinnar, Valdimar Guðmundsson að verið væri að klára upptökur á allra næstu dögum. „Þetta er að klárast hér um bil í þessum töluðu orðum. Síðan fer ákveðið ferli af stað þar sem verið er að mixa, mastera og framleiða plötuna.“ Platan verður tilbúin til útgáfu í október og var tekin upp í Orgelsmiðjunni og Hljóðheimum.
Tónninn í nýju plötunni verður eilítið frábrugðinn fyrri plötunum að því leytinu að notast er við kassagítar sem gefur léttara og bjartara sánd. „Hún er alla vega ekki jafn þung og drungaleg og síðasta plata. Við erum að þróa sándið og notumst aðeins við tölvuhljóð líka. Það er ekki gaman að gera sömu hlutina tvisvar,“ segir Valdimar.
Myndbandið við nýja lagið Læt það duga var gert af myndlistarmanninum Kristni Guðmundssyni og leikur Atli Annelsson eina hlutverkið í myndbandinu. Strákarnir, sem eru góðir félagar hljómsveitarmeðlimanna gerðu saman þetta fyrsta myndband sem gert hefur verið fyrir Valdimar frá grunni í þeim tilgangi að vera tónlistarmynband. Áður gerði Kristinn þó verk með laginu Yfir Borgina.
Meðfram lokavinnslu plötunnar stefnir hljómsveitin á að halda tónleika í lok ágústmánaðar en staður og stund munu koma í ljós síðar. Það er síðan alltaf nóg að gera hjá Valdimar en söngvarinn syngur reglulega í veislum á svæðinu og mun koma fram á Jazzhátíð í Reykjavík ásamt Ásgeiri gítarleikara hljómsveitarinnar. Verslunarmannahelgin verður þó sallaróleg en þvert á það sem gengur og gerist í lífi tónlistarmanna er Valdimar ekki bókaður yfir ferðahelgina miklu. „Hver veit nema ég fari út á land, eða jafnvel á Innipúkann, ég hef ekkert ákveðið enn,“ segir Valdimar að lokum.