Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Valdimar með Lúðrasveit TR í Andrews
Valdimar Guðmundsson, Þorvaldur Halldórson, Karen Sturlaugsson og Haraldur Árni Haraldsson.
Föstudagur 19. apríl 2013 kl. 13:55

Valdimar með Lúðrasveit TR í Andrews

Hljómsveitin Valdimar og Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar ætla að rugla saman reitum á tónleikum í Andrews leikhúsinu á Ásbrú laugardaginn 27. apríl nk., á sjálfan kjördaginn. Þar er ætlunin að sveitirnar leiki saman lög eftir hljómsveitina Valdimar. „Lúðrasveitin mun renna inn í okkar músík,“ sagði Valdimar Guðmundsson í samtali við Víkurfréttir nú í vikunni.

Valdarnir tveir í hljómsveitinni Valdimar, Þorvaldur Halldórsson og Valdimar Guðmundsson hafa unnið að útsetningunum ásamt fleirum, þeim Inga Garðari Erlendssyni og Ásgeiri Aðalsteinssyni sem er einn af meðlimum Hljómsveitarinnar Valdimars, hafa unnið að útsetningum á lögum sveitarinnar þar sem 40 manna lúðrasveit er bætt við hljómsveitina Valdimar. Samtals eru þetta 15 lög sem sveitirnar munu leika saman.

Flutt verða lög af tveimur fyrstu plötum hljómsveitarinnar í nýjum og stórglæsilegum lúðrasveitarbúningi. Lúðrasveit Tónlistarskólans er skipuð 40 afbragðs nemendum og leikur undir styrkri stjórn Karenar Sturlaugsson. Hljómsveitina Valdimar þarf vart að kynna. Árið 2010 spruttu þeir fram á sjónarsviðið með útgáfu plötunnar Undraland og urðu í framhaldi af því fljótlega ein af vinsælustu hljómsveitum landsins. Í fyrra gáfu þeir svo út plötuna Um Stund sem fékk gríðarlega góðar viðtökur frá gagnrýnendum og naut mikilla vinsælda. Haraldur Árni Haraldsson, skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, segir það mikil tímamót að Hljómsveitin Valdimar og Tónlistarskóli Reykjanesbæjar efni til samstarfs. Valdimar sé ein af allra bestu hljómsveitum landsins í dag með söngvarann Valdimar Guðmundsson í fararbroddi. Þá sé Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar einnig í sínu allra besta formi þessa dagana. Hana skipi úrvalslið blásara sem eigi að baki margra ára spilamennsku. Þá sé einnig gaman að geta þess að mikil tengsl séu á milli lúðrasveitarinnar, hljómsveitarinnar Valdimars og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Hljómsveitin Valdimar sé af stærstum hluta sprottin út úr bæði tónlistarskólanum og lúðrasveitinni og þá séu margir af meðlimum Valdimars núna kennarar við tónlistarskólann. Það hafi því verið hæg heimatökin að setja upp þessa tónlistarveislu sem verður laugardagskvöldið 27. apríl nk.

Tónleikarnir hefjast kl. 19:30 og miðasala fer fram á midi.is. Miðaverð er 2000 kr. og það telst gjöf en ekki gjald fyrir þá tónlistarveislu sem boðið verður uppá í Andrews leikhúsinu. Þar verður mikið lagt upp úr hljóði og búið að taka á leigu bæði vandað hljóðkerfi og einnig fullorðins ljósashow. Tónleikarnir verða án hlés þannig að allir ættu að komast heim eða á kosningavökur í tæka tíð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024