Valdi í Eurovision
- Lokaorð Örvars Kristjánssonar
Eurovision vikan er í hámarki en fyrir okkur Íslendinga lauk henni nánast áður en hún byrjaði (á þriðjudaginn) þegar Svala dóttir Bjögga Halldórs komst ekki upp úr undankeppninni og olli það okkur flestum miklum vonbrigðum. Slæmur kafli hjá íþróttaliði í kappleik er yfirleitt frá nokkrum mínútum og upp í einhverja tugi mínútna en því miður þá hefur slæmi kaflinn okkar í Eurovision verið í nokkur ár, í raun eiginlega bara síðan Gleðibankinn (ekki Spkef) var og hét. Enn eitt árið komust við ekki upp úr undankeppninni og ástæða fyrir góðu grillpartýi í maí fokin út í veður og vind. Flest okkar fylgjast með keppninni (af mis miklum áhuga þó) enda afar góð afsökun fyrir bjórdrykkju og snakkáti. Svo eru sumir sem þykjast ekkert fylgjast með en vita þó allt um keppnina og karpa um hana af miklum krafti á samfélagsmiðlum.
Eurovison er að mínu mati mjög skemmtilegur partur af vorinu og það er nákvæmlega ekkert að því en við verðum að fara að drulla okkur upp úr undanriðlinum! Laugardagur í maí, gott Eurovision partý með ferskt lamb á grillinu, gestir í heimsókn, bjór og létt, jafnvel eitthvað sterkara. Skot við hver 12 stig sem Ísland fær og partýið verður tryllt nema í öll þessi skipti sem við fáum ekki 12 stig. En ekkert af þessu verður að veruleika nema við komum laginu í gegn um undankeppnina, komumst í úrslitin og gerum okkur ennþá óraunhæfari væntingar en þegar við vorum þar síðast. Það er alltaf sama umræðan sem er fyrir keppni, hvar eigum við að halda keppnina ef við vinnum? Hvað mun það kosta okkur? Við getum rekið Landspítalann í heilan mánuð fyrir þann aur las ég einhvers staðar. En við erum aldrei að fara að vinna, eða hvað? Nei, lang líklegast ekki. Við viljum bara góða ástæðu til þess að halda gott partý á vordögum, gera okkur glaðan dag yfir þessari keppni sem flest okkar eiga í svona „love/hate“ sambandi við. Þá verðum við líka að fara að gíra þetta upp!
Samsæriskenningarnar um ófarir okkar eru þó nokkrar, austantjaldslöndin eru að rotta sig saman segja menn öskuillir (því að Norðurlöndin gera það ekki…hóst, hóst) aðrir kenna kísilverinu um þetta og nú er það nýjasta nýtt að klína óförum okkar upp á Ástrali (þá helst Karl Kennedy). Það er svo allt önnur umræða, en er ég sá eini sem skil það ekki að Ástralía sé í Eurovision? Hverju missti ég af í landafræðinni? Persónulega held ég þó að ófarir okkar megi skrifa á buffalo skó Svölu og hreint út sagt var lagið ekki nægilega sterkt. Við þurfum meiri gæði. Ég held að lausn vandans liggi hérna fyrir sunnan. Nú er bara kominn tími á að senda Suðurnesjamann þarna út. Keflvíkingurinn Valdimar Guðmundsson myndi sem dæmi rúlla þessu upp, einn af okkar allra bestu söngvurum í dag. Hver í Evrópu (Ástralíu) myndi ekki elska þessa stórkostlegu rödd? Allt sem drengurinn syngur verður að gulli, það er algjör staðreynd. Skora á þig Valdimar, að bjarga því sem bjargað verður.