Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Vakning í forvarnarmálum í Vogum
Fimmtudagur 14. febrúar 2008 kl. 17:58

Vakning í forvarnarmálum í Vogum

-Sveinn Alfreðsson skólastjóri Stóru-Vogaskóla segir forvarnir byrja við fæðingu-

 

Góð mæting var á forvarnarfund sem haldinn var í Stóru-Vogaskóla á mánudagskvöld. Þar stóðu skólayfirvöld, forvarnarfulltrúi Voga og Bára Friðriksdóttir, sóknarprestur í Tjarnaprestakalli, að kynningu á skaðsemi eiturlyfja.
Meðal þeirra sem komu fram var Erlingur Jónsson, forvarnarfrömuður í Lundi, og tveir skjólstæðingar hans sem fóru yfir neyslusögur sínar, sem voru allt annað en fagrar. Þar var líka rætt um afneitun og meðvirkni aðstandenda, en það er einmitt einn af áherslupunktunum í starfi Lundar. Einnig var þar á ferð Hörður Ólafsson, deildarlæknir á slysa- og bráðadeild LSH sem lýsti einkennum og afleiðingum neyslu hjá vímuefnaneytendum.


Sveinn Alfreðsson, skólastjóri Stóru Vogaskóla, var afar ánægður með fundinn og sagði í samtali við Víkurfréttir að hann vonaðist til þess að boðskapurinn hafi skilað sér.
„Við höfðum áður verið með kynningu fyrir nemendur og starfsfólk í skólanum þannig að okkar markhópur að þessu sinni voru foreldrar. Fólk var ánægt eftir fundinn þó það væri að sjálfsögðu slegið að heyra frásagnir unga fólksins.“ Forvarnarmál hafa verið mikið í umræðunni í Vogum að undanförnu eftir fjölmennan borgarafund sem var haldinn í síðasta mánuði en Sveinn segir að skólinn hafi áður verði búinn að ákveða að vera með slíka fræðslu. „Þetta passar samt mjög vel við þá umræðu sem hefur verið í gangi að undanförnu og það má segja að hér hafi orðið vakning um forvarnarmál. Ég lít annars á það þannig að forvarnir eigi að hefjast á fæðingardeildinni. Forvarnir byggja fyrst og fremst á trausti og vináttu milli foreldra og barns. Það kemur svo í bland við eftirfylgni, fræðslu og menntun. Börnin þurfa að mynda sér framtíðarsýn, eitthvað sem fyllir tómarúmið.“

 

Sveinn hóf störf við skólann síðasta haust og er því ekki úr vegi að inna hann eftir hans sýn á bæinn sem utanaðkomandi aðila. „Mér fannst bærinn ekki bjóða upp á svona hluti. Hann er svo fallegur og friðsæll, en eiturlyf eru að verða svo algeng í þjóðfélaginu og þar eru Vogar ekkert betri eða verri en önnur bæjarfélög. Þetta er svo nálægt, en þess vegna verður líka að kenna krökkunum að forðast þessa hluti og með öflugu foreldrasamstarfi og félagsstarfi fyrir börn er reynt að auka fræðslu og er ýmislegt í gangi á þeim vettvangi. Forvarnafulltrúinn er þegar farinn að skipuleggja næsta fund auk þess sem reynt er að vekja áhuga krakkanna á fleiri hlutum. Til dæmis eru nú hafnar æfingar á leikverki sem flutt verður á árshátíð skólans í næsta mánuði.


„Svo veit ég að ýmsir bæjarbúar hafa áhuga á að koma að þessum málum, til dæmis er akstursíþróttaáhugamaður í bænum sem hefur áhuga á að fá krakkana með sér í þess háttar starf. En það er mikill vilji meðal bæjarbúa að ná til þeirra barna og unglinga sem eru í áhættuhópi.“

VF-myndir/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024