Vaknar timbruð af sykuráti flesta morgna
– Helga Jóhanna Oddsdóttir dettur á bólakaf í Nóakonfektið
Keflvíkingurinn Helga Jóhanna Oddsdóttir er ACC markþjálfi hjá Carpe Diem sem er fyrirtæki hennar sem annast markþjálfun og ráðgjöf. Helga segir að Frostrósir komi henni í jólaskap. Hún sé vanaföst um jólin og segist hafa tekið margt með sér úr æskunni en hafi þó skapað sínar hefðir eftir að hún flutti að heiman.
– Hver er besta jólamyndin?
„The Holiday og Love Actually eru dásamlegar. Mér finnst gott að kúra í desember og fara með aðalpersónum í gegnum gleði og sorgir, er algjör sucker fyrir rómantík á dimmum vetrarkvöldum Svo uppgötvuðu strákarnir mínir Home Alone myndirnar fyrir nokkrum árum og þær eru orðnar fastur liður í kósýkvöldum aðventunnar líka“.
– Hvaða lag kemur þér í jólaskap?
„Frostrósir eins og þær leggja sig. Get ómögulega gert upp á milli“.
– Ertu vanaföst um jólin?
„Ég er ótrúlega vanaföst og tek margt frá æskunni þó ég hafi skapað mínar eigin hefðir frá því að ég flutti að heiman. Ég neita t.d. að gera jólahreingerningu sem gerir alla vitlausa og ég held að mamma sé meira að segja farin að slaka á í því. Auðvitað vil ég hafa hreint og fínt en öllu má nú ofgera. Aðventan fer í rólegheit, bakstur og skreytingar. Smákökurnar eru oftar en ekki bakaðar fyrstu helgina í aðventu og svo aftur um miðjan desember þar sem þær eiga það til að gufa upp. Ég dett líka algjörlega á bólakaf í Nóakonfektið og vakna þ.a.l. timbruð af sykuráti flesta morgna um jólin. Svo er nokkuð öruggt að næturnar við lestur góðra bóka verði langar og að ég sjáist á náttsloppnum fram eftir degi. Stóru strákarnir okkar koma svo í humar á jóladag, þ.e. ef við vinnum samkeppnina við tengdafjölskyldurnar. Jólaboð föðurfjölskyldunnar og vistin sem þar er spiluð er líka ómissandi liður í jólunum. Náist þetta eru jólin nákvæmlega eins og ég vil hafa þau“.
– Hvernig er dæmigerður aðfangadagur hjá þér?
„Ég passa að hafa hann rólegan og afslappaðan. Við sofum gjarnan fram á miðjan morgun, eigum notalega stund yfir morgunverði og svo klárum við í rólegheitum það sem eftir er í tiltekt og byrjum að elda. Rétt fyrir sex koma foreldrar mínir, tengdaforeldrar og amma í hús og við borðum þegar RÚV hefur hringt inn jólin. Svo tekur við hefðbundin gleði drengjanna og pakkaflóð sem stendur í einhverja stund. Eftir það er kvöldkaffi og rólegheit og ég enda gjarnan á náttfötunum uppi í sófa með góða bók. Þetta er í raun sama dásamlega rútínan og frá því ég bjó í foreldrahúsum, fyrir utan það að við færðum okkur yfir á mitt heimili fyrir níu árum“.
– Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Þær hafa verið margar og hver annarri dásamlegri. Ég man alltaf eftir því þegar jólasveinninn henti inn í íbúðina sem við bjuggum í, risastórum pakka sem innihélt dúkkuvagn. Enn þann dag í dag er ég á því að hann hafi komið fljúgandi inn um glerið í útihurðinni án þess að opna dyrnar eða brjóta glerið og það eina sem sást var skugginn af jóla þegar hann hraðaði sér í burtu“.
– Hvað er í matinn á aðfangadag?
„Þar þýðir ekkert að stinga upp á breytingum eða tískufyrirbærum hvað það varðar. Rjómalöguð aspassúpa, léttreyktur lambahryggur að hætti mömmu og heimagerður ís hefur verið á mínum borðum alla tíð. Ég varð meira að segja alveg fullorðin í fyrra þegar ég gerði ís í fyrsta sinn“.
– Eftirminnilegustu jólin?
„Þau eru í raun samsettar minningar af hinu og þessu. T.d. úr æsku þegar rafmagnið fór oft af í miðri eldamennsku vegna álags, skreyttur símastaurinn/mastrið í miðbæ Keflavíkur sem sást svo vel úr borðstofunni hjá mömmu og pabba, tilfinningin og þakklætið fyrir fólkið mitt, rólegheitin að loknu pakkaflóðinu og pabbi, og í seinni tíð - maðurinn minn og bræður sofnaðir í sófanum. Ótrúlega afslappandi. Jólin eru dýrmætur minningabanki sem við höldum áfram að leggja inn í“.
– Hvað langar þig í jólagjöf?
„Ef ég ætti að vera ótrúlega eigingjörn, þá væri ég alveg til í að eiga jólin með bræðrum mínum sem búa erlendis og þeirra fjölskyldum. Sakna þeirra hrikalega á þessum árstíma. Fyrir hönd landsmanna: algjöra endurskoðun á hugarfari okkar, endalok net-tröllanna og riddara lyklaborðsins, breytta nálgun fjölmiðla á umfjöllunarefnum, gleði og jákvæðni sem gera lífið svo miklu meira þessi virði að lifa því“.
– Að lokum, eru einhverjar hefðir í kringum Þorláksmessu hjá þér?
„Ég hef yfirleitt átt rólega Þorláksmessu, soðið hangikjötið og dútlað heimavið. Við skreyttum jólatréð alltaf á Þorláksmessukvöld en eftir að við skiptum yfir í gervi höfum við stundum skreytt örlítið fyrr. Ég hef einu sinni prófað skötu, einn munnbita. Það verður ekki endurtekið, takk samt,“ segir Helga Jóhanna Oddsdóttir.