Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Væri til í að vera Jennifer Aniston í einn dag
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 25. júní 2020 kl. 17:15

Væri til í að vera Jennifer Aniston í einn dag

... bara til að vita hvort hún væri enn skotin í Brad Pitt.
Lilja Kristrún Steinarsdóttir segir í netspjalli við Víkurfréttir að hún sé Íslandsmeistari í að taka til og henni líður best í sól og hita og helst við strönd.

– Nafn:

Lilja Kristrún Steinarsdóttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

– Árgangur:

1971.

– Fjölskylduhagir:

Mamma tveggja yndislegra barna, Birkis Orra og Fjólu Margrétar.

– Búseta:

Í Hlíðarhverfinu í Keflavík.

– Hverra manna ertu og hvar upp alin?

Fædd og uppalin í Keflavík. Dóttir Steinars og Veigu og systir Brynjars.

– Starf/nám:

Ég starfa sem bókasafnsfræðingur og kennari við Myllubakkaskóla.

– Hvað er í deiglunni?

Að fara út í yndislega sumarið og upplifa þau ævintýri sem það hefur upp á að bjóða.  Kannski byrja smá að spila golf en dóttir mín pressar mikið á mig að gera það.

– Hvernig nemandi varstu í grunnskóla?

Pottþétt draumanemandi allra kennara alla vega samkvæmt Ölmu Vestmann!

– Hvernig voru framhaldsskólaárin?

Þau voru skemmtileg, lærdómsrík og full af ævintýrum. Örlítið meira lagt í félagslífið en námið.

– Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?

Ætlaði alltaf að verða sálfræðingur og það blundar í raun alltaf enn í mér.

– Hver var fyrsti bíllinn þinn?

Rauð Toyota Corolla. Fannst hann geggjaður!

– Hvernig bíl ertu á í dag?

Kia Ceed Sportwagon.

– Hver er draumabíllinn?

Ég er ekki mikil bílakona. Bara einhver nýlegur á fjórum hjólum sem mér líður vel í og kemur mér á áfangastað.

– Hvert var uppáhaldsleikfangið þitt þegar þú varst krakki?

Blái dúkkuvagninn minn sem ég fékk í jólagjöf frá mömmu og pabba þegar ég var fjögurra ára. 

– Besti ilmur sem þú finnur:

Á sumrin er það klárlega ilmurinn af nýslegnu grasi en á jólunum er það grenilyktin og ilmurinn úr eldhúsinu. Elska jólin!

– Hvernig slakarðu á?

Slaka mest á í sól og hita og helst við strönd. Mundi ekki skemma að hafa góðar vinkonur með. Finnst líka ótrúlega nærandi að fara í góðan göngutúr úti í náttúrunni, vera heima og lesa góða bók eða horfa á eitthvað skemmtilegt. Gott spjall við góðar vinkonur er líka góð hreinsun. 

– Hver var uppáhaldstónlistin þín þegar þú varst u.þ.b. sautján ára?

Hlustaði bara á allt en Madonna var í miklu uppáhaldi og svo var ég mjög hrifin af Fleetwood Mac.

– Uppáhaldstónlistartímabil?

Ætli ég verði ekki að segja 80’s.

– Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?

Ég er voðalega mikið að hlusta á íslensk lög núna ... Jón Jónsson og nýja lagið hans Dýrka mest er pínu að heilla í dag. Spurning hvað það verður á morgun. 

– Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili?

Bara allt og ekkert.

– Leikurðu á hljóðfæri?

Nei, sem betur fer fyrir alla! Hef enga hæfileika á því sviði.

– Horfirðu mikið á sjónvarp og hvernig?

Get ekki sagt að ég horfi mikið á sjónvarp en ég tek stundum tarnir og horfi mikið. Þá verður Netflix eða sjónvarp Símans helst fyrir valinu. 

– Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu?

Ekkert ómissandi þar.

– Besta kvikmyndin:

Pretty Woman og Holiday.

– Hver er uppáhaldsbókin þín og/eða rithöfundur?

Verð að segja Toggi Lilju en Arnaldur er líka í miklu uppáhaldi. 

– Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili?

Börnin segja að ég sé Íslandsmeistari í að taka til svo ætli það sé ekki það.

– Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?

Góð spurning ... verður að spyrja einhvern annan að því.

– Hvernig er eggið best?

Finnst egg ekkert sérstaklega góð.

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?

Fer stundum í taugarnar á mér hvað ég er skipulögð og tek hlutina alvarlega ... vantar smá kæruleysi í mig.

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra?

Óheiðarleiki og slúður.

– Uppáhaldsmálsháttur eða tilvitnun:

Do what you love, love what you do

– Hver er elsta minningin sem þú átt?

Þegar ég var u.þ.b. tveggja, þriggja ára og Brynjar bróðir manaði mig til að stökkva niður af kommóðu og það fór ekki betur en svo að ég missti framtennurnar og var tannlaus ansi lengi. 

– Orð eða frasi sem þú notar of mikið:

Man ekki eftir neinum.

– Ef þú gætir farið til baka í tíma, hvert færirðu?

Hugsa að ég færi til Madison Wisconsin þar sem ég bjó um tíma hjá elsku Eyja og Addý.  Dásamlegur tími og svo lærdómsríkur. Staður sem ég hugsa oft og mikið til.

– Hver væri titillinn á ævisögu þinni?

Liljan, nýtt upphaf ...

– Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera?

Jennifer Aniston. Langar að vita hvort hún er enn skotin í Brad Pitt.

– Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð?

Já það er ekkert annað! Klárlega væri mjög atyglisvert að borða með Donald Trump og Kára Stefáns. Langar mjög mikið að vita hvað er að gerast í hausnum á þeim en ekki svo viss um að það væri draumakvöldverður. Ætli draumakvöldverðurinn yrði ekki með mömmu og Eyja frænda. Gæfi mikið fyrir að hitta þau en til að krydda þetta smá væri ekki leiðinlegt að hafa Brad Pitt eða David Beckham með. 

– Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til?

Erfitt, skrýtið, óvenjulegt, krefjandi, lærdómsríkt. Góð æfing í þolinmæði!

– Er bjartsýni fyrir sumrinu?

Já, mjög og full tilhlökkunar. Hlakka til að fara út í sumarið og góða veðrið sem verður vonandi í sumar.

– Hvað á að gera í sumar?

Ekki mikið planað. Ætla mest að vera heima og njóta þess að vera með börnunum mínum.  Þau og þær stundir sem við eigum saman eru þær allra dýrmætustu. Stelpan mín er í keppnisgolfi og það fer mikill tími í að fylgja henni. Þær stundir gefa okkur mikið.

– Hvert ferðu í sumarfrí?

Það er bara mjög misjafnt. Ég elska sól og hita en í ár verður íslenska sumarið að duga. Hver veit nema ég bregði mér til Eyja í fyrsta sinn. 

– Ef þú fengir gesti utan af landi sem hafa aldrei skoðað sig um á Suðurnesjum. Hvert myndir þú fara með þá fyrst og hvað myndir þú helst vilja sýna þeim?

Það er góð spurning en ég er sjálf alls ekki nógu dugleg að skoða mig um hér! Margt spennandi að sjá og margt sem heillar. Færum einn góðan Reykjaneshring og skoðuðum  helstu  náttúruperlur svæðisins eins og Sandvík, Gunnuhver og Brúna milli heimsálfa. Hægt væri að ganga upp á Þorbjörn eða eiga góða stund í Sólbrekkuskógi, skella sér í Bláa lónið eða sund. Skoða listasöfn bæjarins eins og Duus og Hljómahöllina og enda á einhverjum af þeim góðu veitingastöðum sem eru hér á svæðinu.   

– Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu ...

... elska sól og hita og Ameríku svo ég held að það væri frí sem mundi heilla mig mest núna.