Útvarp Grindavík FM 101,5 tekur til starfa
Næstu þrjá daga verður Útvarp Grindavík með útsendingar á FM 101,5 frá morgni til kvölds. Útvarpið er hluti af þemadögum í Grunnskóla Grindavíkur og munu nemendur sjá um dagskrárgerð undir stjórn útvarpsstjórans Ægis Viktorssonar og Sveins Þórs Steingrímssonar aðstoðarútvarpsstjóra. Beinn sími í stúdíói er 420 1157. Að sögn Ægis var það fyrrum nemandi skólans, Viktor Gunnarsson, sem hafði veg og vanda að tæknimálum við að koma útvarpsstöðinni upp en það kom ekki í ljós fyrr en í gærkvöldi að það tækist að koma útvarpsstöðinni í loftið. Útvarpssendirinn var fenginn að láni hjá Birni Haraldssyni.
Dagskráin hófst í morgun með ávarpi Pálma Ingólfssonar skólastjóra. Að sögn Ægis verður boðið upp á fjölbreytta þætti og tónlist úr öllum áttum. Í dag verður m.a. hitað upp fyrir körfuboltaleik Grindavíkur og Stjörnunnar og standa útsendingar þessa þrjá daga frá kl. 08 til 22 en tónlist verður leikinn yfir nóttina.
Þeir sem vilja senda upplýsingar eða biðja um óskalög geta hringt í útsendingasímann, 420 1157.
Mynd: Útvarpsstjórarnir að störfum í Útvarpi Grindavíkur í morgun.
Grindavík.is