Útskrift hjá MSS í Kirkjulundi
Glæsileg háskólahátíð var haldin þann 17. Júní sl. í Kirkjulundi fyrir útskriftarfjarnemendur HA á Suðurnesjum sem hafa stundað nám sitt í gegnum Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Alls voru 10 nemendur útskrifaðir þar af voru fimm af viðskiptabraut, tveir af leikskólabraut, einn grunnskólakennari og tveir sem iðjuþjálfar.
Í þessum hópi eru tveir karlmenn og átta konur sem kláruðu nám sitt þetta árið og er meðalaldur útskriftarhópsins 36 ár. Nemendur eru búsettir í Reykjanesbæ, Grindavík og í Sveitarfélaginu Garði.
Nokkrir aðilar fluttu ávörp við þessa hátíðlegu stund eins og Hans Guðmundsson, forseti viðskipta- og raunvísindasviðs Háskólans á Akureyri, Helga Jakobsdóttir fulltrúi nemenda, Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri í Vogum og Guðjónína Sæmundsdóttir forstöðumaður MSS.
Við upphaf og lok athafnar söng Birna Rúnarsdóttir lög við undirleik Arnórs Vilbergssonar.
Á myndinni má sjá sjö nemendur ásamt Hans Kristjáni Guðmundssyni forseta viðskipta- og raunvísindadeildar HA og Guðjónínu Sæmundsdóttur forstöðumann MSS.
Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri í Vogum var einn þeirra sem tók til máls.
VF-Myndir: Eyþór Sæmundsson