Útivistarsvæði rís á Stekkjarhamri
Nýtt útivistarsvæði í Reykjanesbæ er nú í undirbúningi undir styrkri leiðsögn Áka Gränz, listamanns í Reykjanesbæ, en útivistarsvæðið stendur á Stekkjarhamri með glæsilegt útsýni yfir Stakksfjörðinn og Faxaflóa.
Árið 1976 stóð Áki fyrir því að svæðið yrði friðlýst og í gegnum tíðina hefur hann barist fyrir því að svæðið yrði ekki eyðilagt. Nú stendur yfir vinna á Stekkjarhamri við að raða upp stórgrýti úr fjörunni neðan við hamarinn og til stendur í náinni framtíð að koma fyrir þarna bekkjum.
„Það hefur verið ásæld í svæðið í gegnum tíðina en ég hef barist fyrir því að það hafi ekki verið mikið flækst hér um og eyðilagt,“ sagði Áki í samtali við Víkurfréttir. „Ég og kunningi minn, Árni Johnsen, höfum verið að vinna í þessu og okkur fannst það leiðinlegt að láta þessa fallegu steina eyðast upp í sjónum og sjávarþanginu,“ sagði Áki en ÍAV aðstoðaði Áka og Árna við að koma steinunum upp úr fjörunni og upp á Stekkjarhamar.
Áki vill að Suðurnesjamenn eignist á Stekkjarhamri útivistarsvæði því þar sé útsýnið gott og synd ef svæðið færi undir stórhýsi sem honum finnst vera orðið helst til of mikið um við sjávarsíðuna.