Útgáfutónleikar Sólmundar annað kvöld
-Gefur út sína fyrstu plötu þrátt fyrir langan tónlistarferil
Sólmundur Friðriksson heldur útgáfutónleika í Bergi, Hljómahöll annað kvöld föstudaginn 29. september k. 20:00 en þar mun hann leika efni af plötu sinni Söngur vonar ásamt hljómsveit en einnig munu góðir vinir stíga á stokk.
Söngur vonar er fyrsta plata Sólmundar Friðrikssonar sem starfað hefur sem tónlistarmaður í fjölda ára.
Yrkisefnið er á persónulegum nótum, ástin og lífið, gleði og sorg, tekið úr reynslubanka og upplifunum höfundar. Einnig kemur fram ákall um frið á jörð og von um bjartari tíð til handa þeim sem eiga við erfiðleika að etja. Má segja að höfundur sé að staldra við á miðri lífsleiðinni og horfa yfir lífið og tilveruna með augum hins miðaldra manns. Tónlistin er einföld og látlaus dægurtónlist, blanda af poppi, rokki og folk-tónlist með ljóðrænu og draumkenndu ívafi á köflum.
Hér má heyra eitt lag af plötunni sem Sólmundur hefur birt á Youtube en það er tileinkað konu Sólmundar og heitir Lagið okkar.