Útgáfuhátíð í Frumleikhúsinu í kvöld
Söngvar kallast nýútkomin ljóðabók eftir Þór Stefánsson og í kvöld verður sannkölluð hátíð fyrir listunnendur í Frumleikhúsinu þegar útgáfu bókarinnar verður fagnað. Þó nokkrir lagasmiðir hafa samið lög eftir ljóðum úr bókinni enda eru þau einkar söngvæn eins og titillinn gefur til kynna. Þeir sem flytja lög sín í kvöld eru Birgir Svan Símonarson, Guðmundur Hermannsson (Mummi), Gunnar Skjöldur Baldursson og Oddur Ingi Þórsson. Sveindís Valdimarsdóttir aðstoðar við flutninginn. Á milli atriða les Þór ljóð úr bókinni.
Söngvar er sjötta frumsamda ljóðabók Þórs og það er bókaútgáfan Deus sem gefur hana út. Kápumynd bókarinnar er eftir Sigurð Þóri listmálara. Þór hefur einnig verið iðinn við að þýða ljóð því hann hefur þýtt fimm bækur eftir franska ljóðskáldið Guillevic en síðast sendi hann frá sér safn frönskumælandi skálda frá Québec í Kanada. Hann hefur einnig þýtt safn ljóða eftir 25 íslensk samtímaskáld yfir á frönsku.
Þór er búsettur í Frakklandi en er hér á landi meðal annars til að kynna bókina. Aðspurður segist hann aldrei hafa samið tónlist við ljóðin sín heldur láti hann aðra um það. Öll lögin sem flutt verða í kvöld voru samin við ljóðin hans en ekki ljóðin við lögin eins og oft er tilfellið.
Aðgangur í Frumleikhúsinu í kvöld er ókeypis og opnar húsið kl. 20:00. Hálftíma síðar hefst dagskráin og hægt er að kaupa léttar veitingar á staðnum.
Vf-mynd/ Magnús.