Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Út úr skelinni! -námskeið í léttri ræðumennsku hjá MSS
Fimmtudagur 1. mars 2007 kl. 14:19

Út úr skelinni! -námskeið í léttri ræðumennsku hjá MSS

Mánudagskvöldið 19. mars hefst námskeið í léttri ræðumennsku, sem Miðstöð símenntunar og Marta Eiríksdóttir bjóða upp á. Miðstöðin hefur verið í samstarfi við Mörtu undanfarin ár um námskeiðahald í sjálfstyrkingu fyrir ákveðna hópa og fyrirtæki.
Nú gefst almenningi kostur á að sækja svipuð námskeið hjá Mörtu og efla sig í léttri ræðumennsku. Víkurfréttir vildu forvitnast nánar um þetta námskeið.

Marta, hvað er létt ræðumennska?
Létt ræðumennska er óformleg ræða sem hver og einn getur tileinkað sér. Þetta námskeið er hugsað fyrir fólk sem langar til að takast á við feimnina í sér og þora að standa upp og tala við ýmsar aðstæður svo sem í veislum og á fundum.
Hver kannast ekki við það að langa til að standa upp og segja nokkur orð við hátíðleg tækifæri en fá í magann við tilhugsunina eða hætta við á síðustu stundu?


Hvernig fer námskeiðið fram?
Þetta verður óformlegt námskeið í þeim skilningi að fólk þjálfast í gegnum ýmsar æfingar, bæði í hópum og sem einstaklingar. Fólk styrkist smám saman og fyrr en varir er það farið að treysta sér til að tjá sig frammi fyrir  hóp.


Lofar þú árangri?
Já, ég treysti mér til þess að lofa árangri, besta auglýsingin mín hingað til er fólk sem hefur farið í gegnum samskonar námskeið hjá mér og sagt að það hafi öðlast ótrúlegan kjark og sjálfsöryggi. Það segir allt sem segja þarf.
Ég vinn mikið með gleðina og vil skapa léttar aðstæður á námskeiðum mínum en á þann hátt tel ég mig draga það besta fram í fólki.
Til þess að ná þessum árangri er um kröftugt námskeið að ræða, sem er skipulagt þannig að þátttakendur hittast tvö kvöld í viku í fjórar vikur svo að fólk nái að einblína á það mikilvæga verkefni, að vinna í sjálfu sér og styrkja sig.


Skráning er hafin hjá Miðstöð símenntunar í síma 421 7500.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024