Úrvalslið Suðurnesjasöngvara þandi raddir í Duus húsum
Söngvarar Suðurnesja var heiti tónleika í Duushúsum í gær en þar komu fram valinkunnir söngvarar af Suðurnesjum sem allir eiga það sameiginlegt að hafa sungið í erlendum óperuhúsum og Íslensku óperunni. Þetta voru þau Bjarni Thor Kristinsson, Jóhann Smári Sævarson, Davíð Ólafsson, Bylgja Dís gunnarsdóttir, Sigríður Aðalsteinsdóttir og Valdimar Haukur Hilmarsson. Undirleik annaðist Antonia Hevesi.
Tónleikar þessir voru seinni hluti tónleikaraðar sem Norðuróp – tónlistarauður Suðurnesja stendur að og fékk verkefnið styrk frá Menningarráði Suðurnesja. Efnisskráin var fjölbreytt og við allra hæfi. Á henni var m.a. að finna íslensk sönglög, perlur úr óperum, uppáhaldslög flytjenda, aríur og dúetta.
Ágætis mæting var í bíósal Duus húsa og þöndu söngvararnir okkar raddirnar svo undir tók við góðar undirtektir gesta. Í hlé fékk fréttamaður Víkurfrétta hópinn saman á mynd í næsta sal þar sem verið er að ljúka við uppsetningu sýningarinnar „Völlurinn“.
Bjarni Thor og Jóhann Smári Sæc
Bíósalurinn var nær fullsetinn. VF-myndir/pket.