Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Úr hárgreiðslunni í lögregluna og bæjarpólitíkina
Sigurrós hefur ekki farið hefðbundnar leiðir eins og kemur fram í viðtalinu við hana. Myndir úr einkaeigu
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 9. apríl 2023 kl. 06:37

Úr hárgreiðslunni í lögregluna og bæjarpólitíkina

Njarðvíkingurinn Sigurrós Antonsdóttir sem fór ung út í rekstur eigin hárgreiðslustofu en venti kvæði sínu í kross og gerðist lögreglukona á miðjum aldri. Sigurrós leiddist út í bæjarpólitíkina til að láta gott af sér leiða og er formaður velferðarráðs Reykjanesbæjar í dag. Víkurfréttir ræddu við Sigurrósu um það sem á daga hennar hefur drifið.

Fór út í rekstur með barn á brjósti

„Sextán, sautján ára fór ég í hárgreiðslu og var eiginlega búin að ákveða þegar í grunnskóla að ég myndi opna mína eigin stofu, bekkjarsystir mín minnti mig á það og það varð að veruleika,“ segir Njarðvíkingurinn Sigurrós Antonsdóttir sem fór mjög ung út í hárgreiðslunám og kláraði meistaranám einungis 22 ára.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það var meistaraskóli hér í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en ég kláraði burtfararprófið frá Iðnskólanum í Hafnarfirði – og um það leyti sem ég var að klára hárgreiðsluna missti ég unnusta minn til fimm ára. Þannig að þetta var pínu harka því ég skellti mér beint í meistaraskólann í Fjölbraut og kláraði hann árið 2003.“

Að námi loknu fór Sigurrós að vinna við hárgreiðslu en fór svo út í að opna eigin stofu árið 2007, á sama tíma og hún eignast sitt fyrsta barn.

„Ég fer út í það að opna stofu eiginlega um leið og ég eignast stelpuna mína, mitt fyrsta barn. Ég og vinkona mín fórum út í þetta saman og gengum á milli heildsala til að skoða efni, tól og tæki með frumburðina okkar ennþá á brjósti. Þetta var algjör geðveiki.“

Sigurrós segir að auk þess að stofna fyrirtæki með barn á brjósti þá opnaði hún stofuna árið 2007, korter í kreppu. „Þá fór allt að dragast saman í samfélaginu en við búnar að leggja allt undir og gera ýmsar skuldbindingar. Þannig að það var pínu sjokk.

Árið 2009 fór ég svo í kennslufræði samhliða því að reka stofuna og sá fyrir mér að fara að kenna hárgreiðslu. Mig bæði langaði að breyta til og hafa kennsluna í bakhöndinni ef eitthvað kæmi upp á. Ég kláraði kennslufræðina 2011, þá ófrísk af barni númer tvö, og er búin að vera viðloðandi kennslu í Fjölbraut síðan, verið að leysa af þegar þess þarf, en alltaf rekið stofuna líka.“

Hárgreiðslukonan Sigurrós við stofuna sína.

2020 var vendipunktur

„Svo kom þetta herrans ár, 2020, með Covid og þær lokanir sem því fylgi,“ segir Sigurrós og heldur áfram: „Þegar það var hægt að loka hárgreiðslustofu í sjö vikur rann upp fyrir mér að ég væri ekki svona ómissandi.“

Sigurrós segir að hún hafi viljað halda stofunni gangandi en á sama tíma var hún sífellt að keppast við að redda hinum og þessum – vildi ekki bregðast viðskiptavinunum.

„Þá fór ég að endurhugsa hlutina. Mér fannst ég ekki vera að skapa nóg, ekki eins og áður. Mér fannst ég alltaf vera að gera það sama, endurtaka sama hlutinn og vera einhvern veginn endalaust að hamast á hamstrahjólinu. Þó svo að vinnan væri skemmtileg, og fólkið sem ég var að vinna með, þá var þetta alltaf sama sagan. Nokkurs konar Groundhog Day.“

Henni bauðst að vera með kvöldskólann í Fjölbraut, í samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar og FS við að hjálpa fólki sem hafði misst vinnuna í Covid til að komast inn í iðngreinar. „Þannig að ég ákvað að slá til og var í því í svona eitt og hálft ár að kenna hárgreiðslu. Kennslan var bara seinni partinn og þá var ég að kenna fólki sem var jafngamalt mér eða á svipuðum aldri, sem var mjög góður lærdómur en því fylgdi áskoranir.

Árið 2020 var vendipunktur og ég fór að hugsa hvað maður ætti að fara að gera næst. Mér fannst ég vera búin að gera svo margt; búin að opna stofu, búin að vera með nema á stofunni, búin að vera með fólk í vinnu og mér fannst ég einhvern veginn vera búin að klára mig. Þetta var komið gott.“

Vinkona myrt

Sigurrós og vinkonur hennar ákváðu að minnast vinkonu sinnar á árinu 2020 sem hefði þá átt að verða fertug en hafði verið svipt lífi tuttugu árum fyrr. Þessi sviplegi atburður átti eftir að hafa mótandi áhrif á Sigurrósu sem hefur mikinn áhuga á ofbeldismálum gagnvart konum.

„Við vildum láta gott af okkur leiða í minningu vinkonu okkar sem hét Áslaug og hafði verið myrt tuttugu árum fyrr. Þarna kemur ofbeldi gagnvart konu við sögu og við vildum safna pening í hennar nafni og gefa til Kvennaathvarfsins. Það gekk vel og við náðum að safna sex, sjö hundruð þúsund á stuttum tíma. Við stofnuðum bók og byrjuðum á bekkjarfélögum okkar sem lögðu inn á bókina og svo óx þetta smám saman. Ég hafði fyrst samband við foreldra hennar Áslaugar, því við erum í góðu sambandi, og spurði þau hvort ég mætti gera þessa söfnun opinbera sem þau gáfu leyfi fyrir.

Þegar maður var ungur og hún deyr þá var maður sjálfur í þessari hringiðu þegar þetta var að gerast. Við vildum safna fyrir ofbeldi gagnvart konum og gefa Kvennaathvarfinu. Þarna fór ég að hafa áhuga á ofbeldismálum og Kvennaathvarfinu, eitt leiðir af öðru og ég skráði mig í félagsráðgjöf en það tengist líka inn í pólitíkina því ég var búin að vera í barnaverndinni í átta ár og langaði að fara að vinna þar.“

Sigurrós lét slag standa og skráði sig í nám félagsráðgjöf en kláraði bara fyrsta árið. „Þetta var staðnám og maður þurfti að hætta að vinna en það hafði svo sem verið alveg planið hjá mér. Eitthvað fannst mér námið ekki alveg eins spennandi og ég hafði búist við og ákvað í fyrrasumar að sækja um í lögreglunni.

Fyrst ætlaði ég bara að vera þar í þrjá mánuði, fara í sumarstarf eins og aðrir nemar. Mig langaði líka að kynnast hinni hliðinni á félagsmálahlutanum en svo þegar ég mæti á fyrstu vaktina varð ég eiginlega bara hissa á hvað þetta er skemmtilegt starf og gefandi. Mig langaði að fara í þannig starf að maður geti stimplað sig inn og viti ekkert hvað bíður manns í upphafi vaktar.

Lögreglustarfið getur verið allt frá því að hlaupa á eftir fjúkandi trampólíni í júlí og lenda í útkalli vegna endurlífgunar, allt á sama degi. Þetta starf snýst um að hjálpa fólki, grunnurinn er þar. Það var ekki fyrr en um mitt sumar í fyrra að ég fór að finna að þetta væri kannski það sem ég gæti hugsað mér að starfa við. Vinkilbeygjan sem ég tók sumarið 2020, áhugi á heimilisofbeldi, hefur leitt mig hringinn og ég hef fundið mína hillu.“

Vinkonuhópurinn við leiði Áslaugar.

Aukið heimilisofbeldi í Covid

Á sama tíma og þú lokar stofunni, í miðju Covid, verður mikil aukning á heimilisofbeldi, er það ekki rétt?

„Algjörlega. Rannsóknir sýndu að því miður fóru tölurnar bara hækkandi á þessum tíma og þær eru reyndar ekki að fara niður. Þetta hefði alla vega áhrif á viðkvæma hópa í samfélaginu. Tölurnar eru bara að fara upp, eða alla vega þær tölur sem ég hef séð. Það getur líka verið að eftir að hafa opnað umræðuna um heimilisofbeldi þá sé ekki verið að stinga því jafnmikið undir stólinn eins og áður. Me Too-byltingin á örugglega sinn þátt í því líka.“

Sigurrós talar um að ofbeldi viðgangist víða í samfélaginu, það sé alls staðar og það sé þöggunin líka.

„Ég er ákaflega ánægð með þessa byltingu sem hefur verið í gangi þrátt fyrir að hún sé stundum, þá meina ég bara stundum, að fara út í öfgar á samfélagsmiðlum. Umræðan verður kannski til þess að dóttir mín, sem er að verða sextán ára, sé ekki að lenda í þessum „körlum“. Sem er vonandi þróun á hegðun fólks, ég vil trúa því. Auglýsingin „Mátti þetta einhverntímann?“ er t.d. alveg frábær.

Umræðan er af hinu jákvæða en má þó ekki ganga út í þær öfgar að dómstóll götunnar taki völdin. Svo má ekki gleyma því að við konur erum alltaf að tala um jafnrétti en konur geta verið alveg jafn slæmar og karlar, samt er minna talað um það – hvar er jafnréttið þar?“

Er á leið í inntökupróf

„Ég sótti um í lögregluskólann og fékk nýverið svar þess efnis að ég sé á leiðinni í inntökupróf. Það komast ekkert allir inn – maður þarf að gangast undir þrekpróf, einhverja viðtalstíma og verkefni sem maður þarf að vinna. Ef allt gengur upp þá byrja ég í haust í fjarnámi frá Háskólanum á Akureyri, þannig að ég þarf ekki að hætta að vinna. Sem er mjög spennandi því maður lærir rosalega mikið við það að vinna við þetta.

Svo er ég mjög ánægð með hversu vel var tekið á móti manni, konu á miðjum aldri. Ég er gamla konan á vaktinni, við vorum nefnilega tvær sem byrjuðum á sömu vakt og það eru tuttugu ár á milli okkar. Það eru allir af vilja gerðir og tilbúnir að hjálpa manni, það er enn ríkari ástæða þess að mig langar að vinna áfram við lögreglustarfið.“

Það er kannski ágætt að fá fólk með reynslu úr lífinu í bland við það yngra í þetta starf. Fólk sem er aðeins sjóað og kannski ekki eins stuttur þráðurinn og hjá því yngra.

„Ég sé það alveg sjálf, og það er búið að koma mér mjög á óvart, hvað ég er get verið fljót að detta inn í aðstæður sem eru erfiðar og við þurfum að takast á við í einhverjum verkefnum. Ég tala til dæmis öðruvísi til fólks en ég hefði gert þegar ég var tvítug – og fólk hlustar líka öðruvísi á okkur sem erum eldri. Auðvitað er maður í öllum verkefnum; maður er í umferðareftirliti, uppi í flugstöð, í fíkniefnamálunum eða hjálpa þeim sem eiga við geðræn vandamál að stríða, þannig að verkefnin eru af ýmsum toga.“

Sigurrós með fjölskyldunni sinni. Brynjar Emil Friðriksson, maður hennar er fjærst og börnin tvö, Katla María Brynjarsdóttir og Sumarliði Brynjarsson, eru á milli þeirra.


Allt þetta álag hlýtur að taka sinn toll. Hvernig er staðið að stuðningi við ykkur?

„Ef við lendum í erfiðum útköllum þá er svona félagastuðningur og viðverustundir eftir á. Þá tölum við um hlutina, hvað megi gera betur og hvernig manni líður. Þannig að félagastuðningurinn heldur mjög vel utan um okkur og þá höfum við aðgang að sálfræðingum einhver skipti yfir árið. Svo er nauðsynlegt að geta leitað til maka eftir stuðningi.“

Sigurrós segir að lögreglustarfið sé fjölbreytt og stundum lendi löggur í skemmtilegum verkefnum en þær lenda líka í erfiðum verkefnum eins og andláti eða sjálfsvígum. „Það er nefnilega alltaf erfitt þegar um andlát er að ræða, sama hvort eldri eða yngri einstaklingur kemur við sögu. Svo lendum við í erfiðum málum sem snúa að geðheilbrigðismálum – en það vantar töluvert upp á að þau mál séu í lagi hér í samfélaginu sem og annarsstaðar á landinu. Við þurfum að gera betur í þeim efnum, sérstaklega fyrir fólk með fíknivanda og geðraskanir fyrir. Lögreglan þarf oft að stíga inn í og koma þeim á geðdeild eða í önnur úrræði. Fjarlægja fólk af heimilinu sem er kannski allt á rúi og stúi og allir þar í sárum.

Ef við tölum um geðheilbrigðismál þá er geðdeild innfrá, á Landspítalanum, þar er líka bráðageðdeild en hún lokar klukkan sjö. Það er auðvitað bara galið að fólk geti ekki orðið geðveikt eftir kvöldmat. Þetta úrræði á auðvitað að vera aðgengilegt allan sólarhringinn því fólk getur lent í að fara í geðhvörf á hvaða tíma sólarhringsins sem er. Lögreglustarfið reynir oft á mann en ég stefni á að halda áfram og gefa af mér.“

„Lögreglustarfið getur verið allt frá því að hlaupa á eftir fjúkandi trampólíni í júlí og lenda í útkalli vegna endurlífgunar, allt á sama degi. Þetta starf snýst um að hjálpa fólki, grunnurinn er þar ...“


Að vilja gefa af sér

Það hugarfar, að gefa af þér, hefur kannski leitt þig út í pólitíkina líka?

„Já, það sama á við þar, löngun til að gefa af sér. Reyndar var ég komin út í pólitíkina fyrir átta árum síðan en árið 2014 plataði nágranni minn, Haukur Guðmundsson, mig til að taka þátt í sveitarstjórnarkosningunum. Ég hef auðvitað alltaf haft skoðanir á ýmsum hlutum og sló bara til, þetta er núna þriðja kjörtímabilið hjá mér. Velferðarmálin hafa verið mér hugleikin og ég tók við sem formaður velferðarráðs í vor. Það passar við það sem ég var að læra í félagsráðgjöfinni og í lögreglustarfinu, þetta tengist allt saman.

Ég var kannski svolítið blaut á bak við eyrun þegar ég tók við sem formaður og áttaði mig ekki almennilega á því hvað þetta er stórt svið. Þarna erum við að ræða um fólk með fatlanir, öldrunarþjónustuna, barna- og fjölskylduteymið hjá Reykjanesbæ, barnaverndin – það er eiginlega allt undir þarna. Þetta er annar stærsti útgjaldaliðurinn hjá sveitarfélaginu á eftir fræðslumálunum. Ég áttaði mig ekki á því hve viðamikið þetta var fyrr en ég fékk það í fangið. Fyrst þurfti ég aðeins að anda mig inn í þetta en er að komast vel inn í málin, svo spyr ég bara ef mér finnst ég þurfa.“

Í samfélagi okkar í dag fer mikið fyrir umræðunni um fólk á flótta og þar eru uppi margar skoðanir. Þetta er málaflokkur sem Sigurrós kemur mikið að í sínu starfi hjá velferðarráði. 

„Það er ýmislegt í gangi hérna sem við erum ekki sátt við sem sveitarfélag, allavega í bæjarstjórninni. Reykjanesbær hefur tekið á móti fólki síðan 2003 og gert það mjög vel. Núna erum við með samræmda móttöku flóttafólks líka og alþjóðateymið hjá Reykjanesbæ hefur unnið mjög gott verk, er með þennan hóp undir sínum verndarvæng og leiðbeinir honum í ýmsum málum – eins og hvernig eigi að komast inn í samfélagið sem er mjög mikilvægt. Fólkið sem kemur hingað er að flýja stríð eða hvaðeina, það þarf að fá utanumhald. Það þarf að fá leiðsögn um hvernig íslensk menning er, hvernig vinnumenning okkar er. Þetta fólk þarf íslenskukennslu og það er okkar sem samfélags að koma til móts við þennan hóp og hjálpa honum að blómstra.

Við þurfum líka að gæta þess að það verði ekki þessi rasismi og kergja í samfélaginu sem maður hefur áhyggjur af að séu að spretta upp á þessum tímum – það viljum við alls ekki.

Þetta er vandasamur málaflokkur og viðkvæmt að tala um þessi mál en þetta er fólk eins og við.“

Sigurrós er formaður velferðarráðs Reykjanesbæjar og varamaður Samfylkingar í bæjarstjórn.

Félagsmál

Sigurrós segist vera með grænt hjarta, Njarðvíkurhjarta. Hún er formaður sunddeildar Njarðvíkur, þar sem dóttir hennar æfir sund, og hefur verið viðloðandi sundið síðan 2012.

Varstu þá sjálf í íþróttum þegar þú varst yngri?

„Ég var nú ekki mikil íþróttamanneskja sjálf, var aðeins í sundinu en gat ekkert í körfubolta – þótt ég væri hávaxin. Ég var hins vegar í skátunum í fimm ár og þótti gaman að fara á skátamót, þar sem var tjaldað, maður lærði að bjarga sér sjálfum og öðrum. Þar kemur þetta líka, að vilja hjálpa öðrum.“

Ég hef unnið mikið í kringum sundið, er sunddómari og búin að vera að dæma. Það er mjög skemmtilegt að fá að fylgjast með þessum krökkum vaxa og afrekskrökkunum að fara sína leið. Ég hef alltaf litið á þetta sem samfélagslegt verkefni og á eftir að sakna þess að vera í sjálfboðavinnu.

„Svo er ég bara þannig að ég er ótrúlega samviskusöm og með ríka réttlætiskennd, manni langar alltaf að gera vel og er í pólitík til að vinna fyrir fólkið. Ég er að þessu til að gera vel og láta gott af mér leiða, í pólitíkinni og vinnunni,“ sagði Sigurrós Antonsdóttir að lokum.

Sunddómarinn að störfum. VF/JPK