Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Uppskriftir: Toblerone ís og lagkaka
Sunnudagur 22. desember 2013 kl. 09:27

Uppskriftir: Toblerone ís og lagkaka

Heimilisfræðikennarinn Unnur Guðrún Knútsdóttir deilir uppskriftum með lesendum Víkurfrétta
Unnur Guðrún Knútsdóttir er fædd og uppalin í Garðinum og hefur alla tíð búið þar. Unnur hefur kennt heimilisfræði í sjö ár, fjögur ár í Gerðaskóla en hún er nú á sínu þriðja ári í Akurskóla í Reykjanesbæ og líkar mjög vel. „Nemendur eru mjög áhugasamir, þakklátir og upp til hópa finnst þeim mjög skemmtilegt í heimilisfræði,“ segir Unnur. Hún hefur gaman af því að elda og baka og gerir mikið af því heima hjá sér. Þá sérstaklega yfir jólin.
„Hefðir eru miklar hjá okkur fjölskyldunni um hátíðirnar þar sem hamborgarhryggur er á boðstólum á aðfangadag og frómas minnar kæru móður er ómissandi eftirréttur með möndlu í. Á gamlárskvöld borðum við kalkún og í eftirrétt er Toblerone ís sem er í miklu uppáhaldi. Unnur deilir uppskrift að þeim ljúffenga ís ásamt uppskrift að brúnni lagköku.
„Uppskriftirnar eru einfaldar og góðar og allir geta auðveldlega gert þær. Njótið vel og megi friður og kærleikur vera með ykkur um hátíðirnar.“

Toblerone ís

6 eggjarauður

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

3 dl púðursykur

3 tsk vanillusykur

½ lítri þeyttur rjómi

100 g Toblerone súkkulaði

Aðferð:

Eggjarauðum, púðursykri og vanillusykri þeytt mjög vel saman.

Þeyttum rjóma bætt út í og að endingu er brytjuðu Toblerone blandað saman við.

Sett í form og inn í frysti.

Verði ykkur að góðu.


Brún lagkaka (hrærð)

1 bolli smjörlíki (smjör)

3 bollar sykur

4½ bolli hveiti

½ bolli kakó

2 tsk lyftiduft

2 tsk matarsódi

½ tsk salt

2 tsk brúnkökukrydd

2 bollar mjólk

½ bolli vatn

1 tsk vanilludropar

3 egg

Aðferð:

Sykur, smjörlíki (smjör) og egg hrært mjög vel saman þar til deigið

verður ljóst og létt. Öllum þurrefnum bætt út í og hrært. Loks er

mjólk, vatni og vanilludropum bætt út í og hrært örlítið saman, skipt

niður á tvær plötur.

Bakað í 15 mínútur við 200°C blástur

Krem:

125 g smjörlíki

300 g flórsykur

1 egg

1 tsk vanilludropar

Öllu hrært saman og smurt á kökuna.

Verði ykkur að góðu.