Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Uppskrift að ljúffengri máltíð á gamlárskvöld
Laugardagur 29. desember 2018 kl. 09:00

Uppskrift að ljúffengri máltíð á gamlárskvöld

Við fréttum að Bidda væri sannkallaður listakokkur og ákváðum að leita til hennar og biðja um góða uppskrift að hátíðarmat um áramót. Hún sagðist elda mikið eftir tilfinningunni og að uppskriftir væru aðeins innblástur. Bryndís Rúnarsdóttir er menntuð í matseld og lauk námi í matartækni frá Menntaskólanum í Kópavogi árið 2015.

Bidda býður lesendum Víkurfrétta upp á heimagerðan girnilegan graflax í forrétt, safaríka kalkúnabringu í aðalrétt og unaðslegan núggat ís í eftirrétt. Verði ykkur að góðu!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Graflax

2 fersk, beinhreinsuð laxaflök með roði

Kryddlögur:

blanda saman í skál:

4 msk. salt
8 msk. sykur
2 msk. pipar
smá aniskrydd
1 bolli dill
1 heil krukka graflaxblanda frá Pottagöldrum
1 stk. smátt saxaður laukur

Aðferð:

Setjið laxaflökin í eldfast mót, snúið roði annars flaksins niður og smyrjið kryddleginum yfir, leggið hitt flakið ofan á svo roðið snúi upp. Kryddlögurinn er nú á milli flakanna. Snúið þessari samloku einu sinni á sólarhring í fjóra daga en Bidda vil hafa þetta vel grafið.

Graflaxsósa:

6 msk. majónes sem þeytt er eitt og sér fyrst
3 msk. sýrður rjómi 18%
6 msk. danskt, sætt sinnep
1 msk. hunang

smá salt og pipar

2 msk. dill

Öllu hrært saman deginum áður því þá verður sósan bragðbetri segir Bidda.



Kalkúnabringur

2 stk. 3,5 kg

Kryddlögur:

Bræða 250 gr af íslensku smjöri
3 msk. sojasósa sett út smjörbráðið
1 msk. paprikuduft
½ krukka kalkúnakrydd Pottagaldrar

Veltið þiðnum kalkúnabringum upp úr þessum kryddlegi ofan í ofnskúffu.

Bakið í ofni á 170°C í 30–40 mínútur á hvert kíló

Penslið kjötið með soðinu aftur og aftur á hálftíma fresti því þá helst kjötið safaríkt og mjúkt. Það verður einnig fallegt á litinn af soðinu.

Heit sósa:
3 stilkar af sellerí skornir smátt
2 gulrætur smátt skorið
1 laukur saxaður smátt
1 msk. kalkúnakraftur
vatn
soð úr ofnskúffunni

Hitið olíu í potti og léttsteikið sellerí, gulrætur og lauk. Hellið smá vatni út í og kalkúnakrafti. Sigtið einn bolla af soði út í og látið sjóða í 35–40 mínútur. Sjóðið saman og þykkið með smjörbollu (smjör og hveiti).

Setjið smá sósulit í restina ásamt 1 msk. af gráðosti, 1 msk. af rifsberjasultu og hátt í pela af rjóma. Hitinn lækkaður í lokin.

Fylling:

10 brauðsneiðar skornar í teninga

1 box sveppir, smátt skornir

1 laukur, smátt skorinn

3–4 sellerí stilkar

Steikt upp úr smjöri og brauð sett út í

Þeyta fimm egg á móti 250 gr af rjóma

salt og pipar sett í eggjablönduna

2 tsk. Poultry Seasoning frá McCormick

smá rósmarínkrydd

Eggjablöndunni hellt yfir brauðið og bakað í ofnskúffu í 30–40 mínútur á 180°C

Berið fram með td. brúnuðum kartöflum og Waldorf-salati, grænum baunum, maískorni og rauðkáli.



Núggatís

Bræðið tvo bolla af sykri beint á pönnu við vægan hita, hrærið í og hellið á bökunarpappír, látið harðna og kólna. Setjið í plastpoka og myljið smátt með kjöthamri.

5 eggjarauður
125 gr flórsykur

Hrært saman
5 eggjahvítur, stífþeyttar sér
2 pelar rjómi, þeytt sér

Blandið öllu varlega saman með sleif, eggjahvítan stífþeytta næstsíðust út í og endið á að bæta brædda sykrinum saman við.