Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Uppsigling fagnar 100 ára afmæli Jónasar Árnasonar
Miðvikudagur 18. október 2023 kl. 12:09

Uppsigling fagnar 100 ára afmæli Jónasar Árnasonar

— með söngstund í Hannesarholti

Uppsigling mætir í Hannnesarholt laugardaginn 21.október kl.14 og syngur lög Jónasar Árnasonar með gestum, í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá fæðingu hans á þessu ári. Textar á tjaldi og allir geta sungið með. Frítt inn.

Hér að neðan getur að líta lýsingu á félagsskapnum Uppsiglingu, með þeirra eigin orðum:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvað er Uppsigling?

Söngfélagið Uppsigling er óformlegt félags fólks sem hefur gaman af að syngja með frjálslegu sniði. Við komum saman annan hvern föstudag yfir veturinn og syngjum okkur til ánægju við eigin undirleik. Flestir eru úr Reykjanesbæ, en einnig fólk úr Sandgerði, Garði, Vogum og fáeinir af höfuðborgarsvæðinu.

Oftast syngjum við saman í Skátaheimilinu í Keflavík en af og til á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsum söngfélaga. Það mæta á bilinu 10 – 25 manns í senn sem er ágætur fjöldi fyrir hópsöng af þessu tagi.

Tilgangurinn með félaginu er að fólk fái tækifæri til að syngja saman, þjálfast í einföldum samsöng, læra lög og texta og hafa af því gaman.  Á sama hátt tækifæri fyrir hljóðfæraleikara að halda sér í þjálfun og þróa sinn stíl. Einnig að halda lífi í gömlum lögum og textum sem margir eru búnir að gleyma og heyrast of sjaldan.

Jafnan er leikið með á gítara, mandólín, bassa, ýmis ásláttarhljóðfæri, stundum harmóniku og stöku sinnum fiðlu. Við sitjum gjarna í hring og syngjum saman með  textamöppur við hönd, sem geyma gömul vinsæl dægurlög, þjóðlög og einnig frumsamið efni. Til dæmis eru margir textar eftir Jónas Árnason, Sigurð Þórarinsson, Jóhannes úr Kötlum, Ása í Bæ og Ásgeir Ingvarsson.

Við byrjum venjulega að syngja upp úr kl. 20 og syngjum í 2 – 3 klukkustundir með kaffihléi og spjalli. Hver og einn velur lag sem hópurinn syngur – valið gengur hringinn, stundum tvo hringi. Þetta er lýðræðislegt val þar sem smekkur allra þátttakenda er virtur. Áfengi er ekki haft um hönd. Engin félagsgjöld eru, en fullorðnir greiða kaffi- og húskostnað þau kvöld sem þeir mæta, u.þ.b. 800 krónur fyrir kvöldið.

Uppsigling heldur ekki tónleika en við förum stundum út á meðal fólks og syngjum fyrir það og með því í senn, einkum með eldri borgurum. Höfum tekið þátt í Ljósanótt, skemmtikvöldum félagasamtaka og afmælissamkvæmum félagsmanna. Við förum stöku sinnum í aðra landshluta, svo sem á Vestfirði og Suðurland og syngjum þar gjarna með heimafólki.

Uppsigling hefur starfað frá 1995. Forveri Uppsiglingar var Söng- og skemmtifélagið Samstilling, sem starfaði með líkum hætti í Reykjavík 1984 – 1993. Það var heldur stærra félag og var sungið á hverju mánudagskvöldi á veturna, síðustu árin í Hljómskálanum. Þar var byrjað að safna söngtextum í möppu og fjölfalda fyrir félagsmenn. Fólk kom með handskrifaða eða prentaða texta sem hópurinn prófaði. Þau lög sem féllu fólki í geð fóru síðan í möppuna og hún þykknaði með árunum.  

Uppsigling byrjaði með þessa möppu frá Samstillingu en hefur síðan bætt verulega við og hafa hjón í félaginu sett allt textasafnið smekklega upp í tölvu, u.þ.b. 500 texta. Lagavalið endurspeglar áhuga og smekk þeirra sem hafa sungið og starfað mis lengi tímabil sem telur bráðum 4 áratugi. Þar fer mest fyrir dægurlögum, aðallega frá tímabilinu 1950-1980 (m.a. textar sem fáir þekkja lengur) og nokkuð er um þjóðlög og fáein baráttulög. Nokkra texta og lög hafa félagsmenn gert sjálfir og ber þar einkum að nefna Ásgeir Ingvarsson sem starfaði með Samstillingu þar til hann lést um 1990. Úr okkar hópi má nefna textaskáldið Harald N. Kristmarsson og söngvaskáldið Ólaf Sigurðsson (hann var í South river band).