Upplifir æskudrauminn á flugi um allan heim
– fyrsti nemandinn sem útskrifaðist sem atvinnuflugmaður frá Keili
Pétur Hrafn Jónasson varð árið 2010 fyrsti nemandinn sem útskrifaðist sem atvinnuflugmaður frá Keili. Hann hefur komið víða við síðan og starfað sem flugmaður um allan heim. Hann mun senn hefja störf hjá Icelandair en hann segist vera að upplifa æskudrauminn.
„Það eru algjör forréttindi að fá að vinna við áhugamálið sitt. Svo ekki sé minnst á það að maður fær að ferðast um allan heim, en eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að ferðast. Þetta er líka mjög fjölbreytt starf og maður kynnist nýju fólki og nýjum hlutum í nánast hverju flugi,“ segir Pétur sem lauk bóklegu atvinnuflugnámi í Oxford áður en hann hóf nám hjá Keili. „Eftir að því námi lauk bar ég saman þá kosti sem í boði voru á þeim tíma fyrir verklegt atvinnuflugmannsnám og fannst mér Keilir þar standa upp úr hvað varðar flugvélakost, aðbúnað og staðsetningu á Keflavíkurflugvelli, en hún er frábær og kemur manni strax inn í þetta alþjóðlega umhverfi sem nýtist manni vel seinna.“
Eftir að námi lauk starfaði Pétur um stund hjá Load Control hjá Icelandair þar til að hann fékk loks flugmannsvinnu í Evrópu eftir nokkra bið. Sú vinna var hjá flugfélaginu Farnair Switzerland en þar flaug Pétur ATR-42 og ATR-72 skrúfuþotum. „Ég var hjá þeim í tvö ár, fyrra árið í Köln, Þýskalandi þar sem ég flaug mestmegnis fraktflug fyrir UPS en seinna árið var ég í Basel, Sviss og þaðan var mestmegnis farþegaflug á vegum Air France ásamt leiguflugi sem var oft mjög skemmtilegt til dæmis ferðir með fótboltalið, sinfóníuhljómsveitir og fleira í þeim dúr.“
Leiðin liggur til Mið-austulanda
Eftir dvölina í mið-Evrópu fékk Pétur tækifæri sem erfitt var að segja nei við. Hann réði sig í vinnu hjá Atlanta þar sem hann hafði aðsetur í Jeddah í Saudi Arabíu. Þar flaug hann Boeing 747-400 þotum í verkefnum fyrir Saudi Arabian Airlines. „Þetta var mjög skemmtilegur tími og frábær vél að fljúga og flugum við til margra skemmtilegra og áhugaverðra staða sem flestir ferðast ekki til að staðaldri, til dæmis til Bangladesh, Indónesíu, Afríku og Mið-austurlanda. Þetta var bæði fraktflug og farþegaflug. Eftir stoppið hjá Atlanta gafst mér tækifæri enn á ný á því að skipta um starf og þá loks heima á Íslandi hjá Icelandair og er ég þessa dagana að ljúka þjálfun á Boeing 757 og hlakka ég mikið til þess að byrja að fljúga fyrir þá síðar í mánuðinum.“
Sendi atvinnuumsóknir um allan heim
Möguleikarnir í flugbransanum voru af mjög skornum skammti þegar Pétur var að útskrifast. „Þetta var rétt eftir hrun og lítið af atvinnu í boði. Ég sendi umsóknir út um allan heim en lítið var um svör. Þess vegna fór ég til Load Control sem gaf mér mikla innsýn inn í þennan geira og hefur reynst góður grunnur til að byggja ofan á.“ Mikið hefur þó breyst á nokkrum árum og nú horfir til betri vegar fyrir unga flugmenn.
„Það eru breyttir tímar frá því ég stundaði mitt nám hjá Keili en ég var þá einn af fáum nemendum í verklegu atvinnuflugi hjá skólanum og því mjög þægilegt aðgengi að bæði vélum og kennurum. En án þess að þykjast hafa mikla innsýn inn í daglegan rekstur eða gengi flugskóla Keilis þá sýnist mér hann hafa vaxið og dafnað með ágætum og heyrir maður aðeins góðar sögur af honum og starfsemi hans.“